141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[18:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af orðaskiptum hv. þingmanna hér á undan þá hef ég skilið fréttir þannig að lækka eigi tryggingagjaldið þegar atvinnuleysi minnkar enda er tryggingagjaldið hugsað þannig. Þegar sá hluti tryggingagjaldsins, sem er svokallað atvinnutryggingagjald, er lækkaður og hið almenna síðan hækkað á móti þá er niðurstaðan auðvitað sú sama fyrir fyrirtæki. Það er því ekki verið að lækka tryggingagjaldið.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni áðan að menn þyrftu að koma og svara fyrir það hvernig þeir vildu gera hlutina öðruvísi. Ég hef margoft farið yfir það að við höfum ekki sömu sýn á það hvernig skynsamlegt er að fara í hlutina. Við sjálfstæðismenn vildum fara í atvinnuuppbyggingu og töluðum fyrir því. Við höfum lagt fram tillögu á hverju þingi sem hefur því miður ekki hlotið afgreiðslu í þinginu. Við vildum bara fara aðrar leiðir. Við vildum byggja upp atvinnu en ekki fara í þessa skattpíningarstefnu.

Síðan er ágætt að rifja það upp við þessa umræðu að þegar skattarnir voru lækkaðir, þ.e. skattprósentan var lækkuð á sínum tíma, fyrir nokkrum árum, þá jukust skatttekjurnar. Þá sögðu vinstri grænir og sumir aðrir: Þetta eru auðvitað ekki skattalækkanir, þetta eru skattahækkanir. Umræðan getur oft verið mjög sérkennileg. Það er hreint með ólíkindum að við þurfum að vera að pexa um þetta í andsvörum. Auðvitað hefði verið eðlilegt að við hefðum fengið að klára að ræða efnahagstillögur okkar á sínum tíma þó að ég sé ekki að ásaka hv. þingmann sem ég er í andsvörum við fyrir það, sem ræður ekki dagskrá þingsins. Það hefði verið betra ef við hefðum tekið efnislega umræðu um málið.

Hv. þingmaður vitnar í orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar þegar hann sagði að það væri eðlilegt að rústa fjárlögunum. Ég held að hann hafi sagt það á fundi fyrir norðan eða austan. Ég vil minna hv. þingmann á að tillögurnar voru arfavitlausar, þ.e. að fara í niðurskurð á einstaka heilbrigðisstofnunum um upp undir 30 eða 35%, og (Forseti hringir.) voru þær að sjálfsögðu dregnar til baka áður en fjárlögin voru afgreidd.