141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[18:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður og kannski flestir hv. þingmenn hér inni séum ekkert svo langt hver frá öðrum í því hvar við viljum skera niður og hverju við viljum hlífa. Það eru einstaka þættir sem við erum ekki sammála um í þeim efnum en í meginmarkmiðum held ég að allir hv. þingmenn séu sammála um það, sama hvar þeir eru í flokki, að hlífa velferðarkerfinu og heilbrigðiskerfinu. Það gefur augaleið. Okkur greinir fyrst og fremst á um hvaða leiðir séu betri eða verri til tekjuöflunar. Við vildum ekki fara svokallaða skattpíningarleið, við vildum fara í atvinnuuppbyggingu, skaffa fleiri störf og búa til meiri atvinnu. Þar greinir okkur á, það er alveg rétt, og okkur mun eflaust greina á um þær leiðir áfram. Það liggur fyrir.

Það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þegar verið er að tala um þennan glæsta árangur og það allt saman þá hefur planið sem lagt var af stað með með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á sínum síma ekki gengið eftir að öllu leyti. Fallið var reyndar minna en gert var ráð fyrir þó að ég sé ekki að gera lítið úr því, það má ekki skilja það þannig. Fallið var minna, samdrátturinn í hagvextinum var minni en það hefur ekki gengið nægilega vel að koma atvinnuuppbyggingunni í gang. Um það þurfum við ekki að deila. Það blasir við okkur, það gefur augaleið. Ég hef ekki tíma í þessum stuttu andsvörum til að ræða efnislega við hv. þingmann um í hverju það felst.

Ég vil líka minna á hinn svokallaða fyrir fram greidda skatt stóriðjunnar sem nefndur var hér áðan og var á sínum tíma samkomulagsatriði á milli stjórnarmeirihlutans og aðila stóriðjunnar um að þeir tækju þátt í uppbyggingu með því að greiða þennan fyrirframskatt. 3,6 milljarðar voru greiddir á árinu 2010, 2011 og 2012. Hugsunin var sú að síðan yrði upphæðin dregin frá tekjuskattinum sem þessi fyrirtæki mundu hugsanlega greiða í framhaldinu. Svo var það var líka séreignarsparnaðurinn og hvaðeina. Okkur greinir fyrst og fremst á um leiðir að tekjuöflun en ekki eða að litlu leyti um hverju við eigum að hlífa í niðurskurði.