141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[18:21]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stjórnarandstöðunni eða Sjálfstæðisflokknum er tíðrætt um skattpíningarleiðina sem var farin. Hver er skattpíningarleiðin? Við lögðum af stað með gersamlega flatan skatt eftir að skattkerfinu var nánast rústað í aðdraganda hrunsins með flatan lágan skatt á launaskatt og fyrirtæki. Það finnst hvergi nokkurs staðar í dag neitt sambærilegt við það sem þá var, hvergi nokkurs staðar. Hvert ætla menn að fara til að finna 10% skatt af fjármagnstekjum? Til Evrópulanda? Bandaríkjanna? Hvar í ósköpunum ætla menn að finna þá vitleysu sem var í skattamálum á Íslandi á þessum tíma?

Menn dreymir um að endurtaka þetta og hafa flutt tillögur um að endurtaka þetta allt saman, efnahagstillögur heilu stjórnmálaflokkanna snúast um að endurtaka þetta. Skattpíningarleiðin sem sjálfstæðismenn fjalla mikið um snýst um að gera skattkerfið samkeppnishæft og sambærilegt við það sem er að gerast í öðrum löndum sem við eigum viðskipti við. Það er öll píningin og kvölin.

Hvaða atvinnulíf ætlaði hv. þm. Ásbjörn Óttarsson að keyra hér í gang sumarið 2009 og 2010 þegar nýbúið var að keyra allt atvinnulíf í þrot? Hundruðum og þúsundum saman hafa fyrirtæki farið í gjaldþrot vegna þess sem gerðist haustið 2008. Svo segja menn: Þetta var ekkert mál, við þurftum bara að keyra atvinnulífið í gang 2009, þá var allt komið, við þurftum ekkert meiri tekjur, það þurfti ekki að lagfæra skattkerfið, þurfti ekki að fara neinar tekjuöflunarleiðir, nei, nei, bara að endurreisa hrunið, endurreisa rústirnar, (Forseti hringir.) stilla upp á nýtt og taka darraðadansinn að nýju. Nei, virðulegi forseti, það er ekki það sem við í þessari ágætu vinstri stjórn ætlum að bjóða upp á.