141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[18:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmönnum Ásbirni Óttarssyni og Birni Vali Gíslasyni þegar þeir tala um nauðsyn þess að vinna að langtímaáætlunum varðandi skuldamálin og að tilgreina þurfi í hvaða skrefum við greiðum niður skuldir á næstu árum. Um þetta er ágætlega fjallað í fjárlagafrumvarpinu.

Ég fór yfir það í framsöguræðu minni um frumvarpið að endurreisn efnahags landsins eftir hátt fall þess væri ekki bara fyrir skynsamleg verk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur heldur náðist árangur vegna þess að fólkið í landinu lagði sig fram við lausn vandans. Þetta fólk á skilið að við förum vel með almannafé, ráðstöfum skatttekjum skynsamlega og á réttlátan hátt, að við hugum að langtímahagsmunum í stað skammtímalausna og að almannahag í stað sérhagsmuna. Ég veit að hv. fjárlaganefnd mun hafa þetta að leiðarljósi við afgreiðslu sína á frumvarpinu. Umræður og skoðanaskipti og nánari skoðun á frumvarpinu mun vafalítið bæta það og styrkja kunni veikleikar að leynast í einhverjum málaflokkum. Almennt vitnar frumvarpið um góðan árangur í ríkisfjármálum.

Að lokum vil ég þakka fyrir umræðuna sem hefur verið gagnleg fyrir áframhaldandi vinnu með frumvarpið. Að því sögðu, frú forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar.