141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

kjarasamningar hjúkrunarfræðinga.

[13:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra nefndi að ekki væri búið að gera plan um hvernig bregðast ætti við þessari stöðu og ekki búið að finna út úr því með starfsmönnum Landspítalans hvernig brugðist yrði við þeirri stöðu sem er þar innan dyra. En hvenær er þá von á slíku plani, hvaða vinna er í gangi við að koma því saman? Erum við ekki sammála um að ef mönnum er alvara með að hlífa heilbrigðisþjónustunni þá kalli það á einhvers konar endurskipulagningu? Verða menn þá jafnvel ekki að sætta sig við að setja aðra hluti í bið eins og framkvæmdir? Verða menn þá ekki að bíða með það í einhvern tíma að setja fjármagn til uppbyggingar í heilbrigðisþjónustu í steinsteypu? Er hæstv. ráðherra í öllu falli ekki sammála mér um að gera þurfi allt til að tryggja að heilbrigðisstarfsfólk geti hugsað sér að vinna áfram á Íslandi?