141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

skýrsla Seðlabankans um gjaldmiðilsmál.

[13:43]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel að þessi skýrsla Seðlabankans sé mjög gagnleg og viðamikil greining á stöðunni. Hún er hjálpleg til að fá umræðuna á málefnalegan grundvöll og niðurstöðurnar eru eins skýrar og ég tel að málefnaleg staða bjóði upp á. En það er heldur ekki reynt að halda því fram að henn höndli allan sannleikann á þessu stigi mála.

Útgangspunkturinn, það sem blasir við af þessari skýrslu, ætti ekki að koma neinum á óvart. Það er auðvitað það að hvað sem framtíðin ber í skauti sínu þá þurfum við að koma okkar málum í lag hér heima. Komum húsinu í lag og þá erum við frekar í færum til að velja okkur leiðir inn í framtíðina. Það þarf að styrkja umgjörð peningamála, efnahagsmála og ríkisfjármála og samþætta þetta. Það eru tveir valkostir fyrst og fremst sem skýrslan dregur fram. Það er krónan áfram eða hugsanlega upptaka evru og innganga í myntbandalag. Skýrslan reifar kost og löst á báðum þeim leiðum. Ég tel ekki að auðvelt sé að lesa út úr henni endilega að annar þeirra sé miklu betri en hinn. Þá væri okkur nokkur vandi á höndum því það eina ábyrga í stöðunni er að gera ráð fyrir þessum kostum báðum sem jafngildum vegna þess að annar hvor þeirra getur orðið hlutskipti okkar um langa framtíð.

Það nægir að taka þau augljósu rök fram og upp á borðið að þó svo að samningar næðust við Evrópusambandið um inngöngu í það bandalag en þjóðin hafnaði því í þjóðaratkvæðagreiðslu þá ætla menn væntanlega ekki að standa eins og glópar og segja að við höfum þá enga peningastefnu og enga gjaldmiðilsstefnu og enga efnahagsstefnu til að byggja á. Krónan verður væntanlega gjaldmiðill okkar í að minnsta kosti ein allmörg ár og við þurfum að búa vel að henni á meðan. Ég tel að skýrslan sé ágætisgagn og veiti okkur fullnægjandi leiðsögn til að stíga næstu skref í þessum málum. Ég hvet menn til að fara hvorki fram úr sér né of mikið aftur á bak í málefnalegri umræðu á grundvelli hennar.