141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

launamál heilbrigðisstarfsmanna.

[13:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra segir að það hafi ekki komið á óvart að fram kæmu þau sjónarmið frá launþegum að þeir gætu sótt sér auknar kjarabætur. Nú liggja kröfur heilbrigðisstarfsmanna fyrir og þess vegna undrar það mig nokkuð að hæstv. ráðherra treysti sér síðan ekki til að hafa skoðun á málinu.

Hæstv. ráðherra greindi frá því hér áðan að það lægi ekki fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig ætti að bregðast við. Nú er hæstv. ráðherra búinn að segja okkur að þetta mál hafi svo sem ekki komið á óvart og þess vegna hefði maður ímyndað sér að hann og ríkisstjórnin hefðu verið farin að hugsa sitt ráð og hugsað um það með hvaða hætti ætti að bregðast við.

Ég heyrði ákveðin almenn sjónarmið um að það væri æskilegt að heilbrigðisstarfsmenn hefðu góð laun. Það geta auðvitað allir tekið undir það og á við um fleiri starfsstéttir. Hæstv. ráðherra getur ekki skákað í því skjóli að hann sitji hjá eins og hlutlaus áhorfandi og fylgist með. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa einhverja skoðun á þessu. Ég kalla eftir því að hæstv. ráðherra tjái okkur skoðun sína á þeirri stöðu sem er uppi (Forseti hringir.) og sérstaklega á þeirri stöðu sem komin er upp varðandi þá sýndarmennsku- og lýðskrumslöggjöf sem hæstv. ríkisstjórn setti á sínum tíma um launamál (Forseti hringir.) og viðmiðið við laun hæstv. forsætisráðherra.

(Forseti (ÁRJ): Enn minnir forseti á tímamörk.)