141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

launamál heilbrigðisstarfsmanna.

[13:54]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað hægt að ræða þessi mál en við gerum það varla á einni mínútu, varðandi launamál og hvernig sú staða er í landinu almennt. Ég vakti athygli á því að íslenskt samfélag hefur búið við það að forgangsröðunin í launamálum hefur verið mjög skrýtin. Hún hefur fyrst og fremst verið með viðskiptum og bönkum og öðru slíku gegn því fólki sem hefur verið að vinna í velferðarkerfinu. Ég held að það skipti miklu máli að við reynum að breyta þeirri forgangsröðun og ég þakka ef við fáum liðsstyrk frá Sjálfstæðisflokknum í þeirri vinnu.

Það er líka rétt sem kom hér fram þegar við vorum að ræða stöðu íslensku krónunnar og erlendra gjaldmiðla að íslenska krónan er afar erfið eftir að hún hrundi svo verulega. Við erum í samkeppni við nágrannalönd um besta fagfólkið og það veikir stöðu okkar . Ég biðst undan því að talað sé um einhverja sýndarmennsku.

Varðandi ákvæðið um viðmiðið við laun forsætisráðherra þá eru að koma núna inn í þingið tillögur, ef þær eru ekki þegar komnar, um breytingar varðandi kjararáð. Þær hljóta að fá eðlilega málsmeðferð þar því að þar er tekið á þessum málum að hluta.