141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

fjárhagur Ríkisútvarpsins.

[13:56]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég kem hingað upp til að spyrja mennta- og menningarmálaráðherra um fjárhag Ríkisútvarpsins sem ég hef áhyggjur af vegna lausafregna um að hann sé miklu verri en hann var áætlaður eða talinn síðast þegar gefnar voru um hann skýrslur.

Við höfum vitað það í nokkur ár að vandamál hafa verið á Ríkisútvarpinu, ekki nokkur ár heldur nokkra áratugi réttara sagt. Ég stóð í þeirri trú að þar hefðu farið fram miklar hagræðingaraðgerðir undir forustu stjórnarmanna Ríkisútvarpsins ohf. og þeirra sem þar ráða ríkjum. Deilt var töluvert á ríkisstjórnina og Alþingi og sagt að af útvarpsgjaldinu hefði verið klipið. Ég hélt að það væri að komast í lag — við skulum orða það varlega. Ég vissi ekki betur en að reksturinn væri í þokkalegu lagi, að áætlanir hefðu staðist eða væru að standast. Engar fréttir hafa borist um annað í þingið, ég veit ekki um ráðuneytið.

Lausafregnir þessar herma að vegna þess að fjárhagurinn sé öðruvísi en kynnt var standi yfir eða séu í aðsigi einhverjar aðgerðir hjá Ríkisútvarpinu. Ég ætla svo sem ekki að skipta mér af því, til þess höfum við stjórn og yfirmenn þar, en ég vil fá að vita af hvaða sökum menn eru að fara í þær aðgerðir og ég vil fá að fylgjast með þeim mjög nákvæmlega vegna þess að Ríkisútvarpið er stofnun sem er okkur mikils virði af ýmsum ástæðum, lýðræðislegum og ekki síður menningarlegum. Það er ekki sama hvernig farið er í aðgerðir og niðurskurð á þessari stofnun. Það verða að vera fyrir því mjög góðar ástæður.