141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[14:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi ræða við hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og yfirlýsingu forustumanna stjórnarflokkanna frá því í vor.

Sagan hefur kennt okkur að því miður standa ekki margar af þeim yfirlýsingum og margt samkomulag sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert á yfirstöðnu kjörtímabili. Er skemmst að minnast ýmissa hluta í kringum Icesave, stöðugleikasáttmálans, kjarasamninga og annars og er þá styst að vísa til Samtaka atvinnulífsins og ASÍ.

Ég er aftur á móti alinn þannig upp og hef vanist því og haga mér þannig í störfum mínum að þegar maður gerir samninga standi maður við þá, hvort sem þeir eru munnlegir eða handsalaðir, hvað þá ef maður setur stafi sína við þá. Það er engin launung á því að við framsóknarmenn vildum í vor láta á það reyna að klára málið um stjórn fiskveiða samhliða veiðigjaldafrumvarpinu til að forðast þær uppákomur sem nú hafa orðið hér í haust þegar ýmsir þingmenn stjórnarflokkanna og jafnvel forustumenn hafa gert lítið úr því samkomulagi sem var gert í vor, jafnvel haldið því fram að það haldi ekki neitt. Þeir menn sem voru skipaðir af formönnum flokkanna til að vinna ákveðna vinnu og skiluðu af sér náðu kannski 80–90% samkomulagi um það hvernig þetta mál skyldi vera. Það var á nákvæmlega sömu nótum og var unnið í vor, stóð þá nákvæmlega þannig og var skilað með greinargerð nú til ráðherra. Því kemur mér það mjög á óvart að það skuli koma jafnvel fram hjá hæstv. ráðherra, síðast í kvöldfréttatíma í gærkvöldi, að ekki standi til að standa við slíkt samkomulag, jafnvel þótt það sé undirritað af hæstv. forsætisráðherra og hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Því vil ég spyrja ráðherra hvort þetta sé ekki einhver misskilningur. Við vitum vel af ósamstöðu innan ríkisstjórnarflokkanna en ég hefði haldið að forustumenn stjórnarflokkanna, forustumenn ríkisstjórnarinnar, gætu staðið við (Forseti hringir.) orð sín.