141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

raforkumál á Norðurlandi.

[14:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Kröftug haustlægð skall óvenjusnemma á Norður- og Norðausturlandi í ár. Fé fennti í kaf og fjárskaði er mikill, rafmagnsstaurar brotnuðu og línur slitnuðu vegna mikilla ísinga og þunga svo rafmagn fór víða af og á stóru svæði. Svo alvarlegt var ástandið að almannavarnaástandi var lýst yfir að kvöldi þriðjudagsins 11. september. Þegar búið er að lýsa almannavarnaástandi tekur ríkissjóður þátt í kostnaði við björgun við að ryðja vegi og götur og auðveldar vinnu. Komið hefur fram í samtölum atvinnuveganefndar við fólk fyrir norðan í morgun að með aðkomu ríkisins skapaðist mikil festa og öryggi jókst, íbúunum leið strax betur.

Samkvæmt upplýsingum frá Rarik og Landsneti er þetta mesta tjón af völdum ísingar í 17 ár. Raforkan er nú meiri lífæð í samfélaginu en áður var og höfum það hugfast að mikil breyting hefur orðið á síðustu áratugum, til dæmis vegna fjarskiptakerfa og búnaðar tækja, svo eitthvað sé nefnt. Mest tjón virðist hafa orðið í Mývatnssveit og þess vegna er málið tekið upp í sérstakri umræðu til að ræða við hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um það þar sem raforkumál og búnaðarmál heyra undir svið hans.

Af nógu er að taka en það verður ekki allt gert á þeim fimm mínútum sem ég hef hér til ráðstöfunar, fyrst um rafmagnslínur og rafmagnsleysi svo og afhendingaröryggi raforku. Í raun var unnið kraftaverk við að koma rafmagni á og minnka hið mikla tjón sem varð. Komið hefur fram að tjón Rariks og Landsnets er áætlað 250–300 millj. kr. Allir sem hönd lögðu á plóg við að koma hlutunum í lag eiga miklar þakkir skildar fyrir mikil störf við erfiðar aðstæður.

Jákvæðar fréttir hvað þetta varðar bárust í gær þar sem Rarik tilkynnti að þeir ætluðu að hefja uppbyggingu á línunni í Mývatnssveit með því að setja alla línuna í jörð. Þeir sem ekki hafa þriggja fasa rafmagn fá það þá í leiðinni. En afhendingaröryggi er líka nokkuð sem við þurfum að ræða. Fram kom á fundi atvinnuveganefndar í morgun að á Þórshöfn er öryggi raforkuafhendingar mjög ábótavant vegna þess að aðeins ein lína liggur til þess byggðarlags þar sem er mjög mikil fiskvinnsla sem er meðal annars keyrð með svartolíu. Það þarf að taka sérstaklega fyrir, virðulegi forseti.

Þá sný ég mér að því sem ég lét hæstv. ráðherra vita um að ég mundi líka ræða, þ.e. að málefnum bænda. Áhlaupið kemur alveg sérstaklega illa við bændur þegar svo mikið af lömbum er enn í haga eða ekki komið heim eða í sláturhús. Það er alvarlegt áfall fyrir bændur. Fjárskaðar hafa orðið miklir, allt frá Kelduhverfi og austur og svo vestur í Húnavatnssýslu. Á fundi atvinnuveganefndar í morgun barst okkur bréf úr Skagafirði þar sem er líka mjög slæmt ástand og fjárskaði mikill.

Fram kom á fundi atvinnuveganefndar í morgun með fulltrúum Skútustaðahrepps að enn vantar um 1.500 fjár af fjalli og ekki er vinnandi vegur að ná því fé af fjalli þar sem mikil ófærð er og erfitt að komast um. Þurrkar í sumar gerðu það að verkum að lítill heyfengur var á árinu og nú þarf að gefa því fé sem komið er í hús. Það gerir ástandið enn erfiðara fyrir bændur. Heildarmyndin er því enn þá mjög óljós og margar vikur, jafnvel mánuðir, munu líða þar til allt tjón verður metið og þá sérstaklega hvað varðar fjárskaða. Við þurfum að hafa í huga að dýralæknar eiga eftir að meta ástand lamba sem farið er með í sláturhús. Þar á örugglega eftir að koma í ljós mikið tjón vegna slæms ástands þess fjár sem komið er af fjalli, að við tölum nú ekki um hin félagslegu áföll sem eru jafnvel þannig að sumir bændur láta hugfallast varðandi áframhaldandi búskap. Það má aldrei verða og þess vegna er mikilvægt að þau skilaboð komi frá ríkisvaldinu sem komið hafa og ég tel að þau muni koma líka við þessa umræðu.

Bjargráðasjóður gegnir þar mikilvægu hlutverki. Fulltrúar Bjargráðasjóðs komu á fund atvinnuveganefndar í morgun og ræddu við okkur. Segja má að við höfum fengið þar mjög upplífgandi upplýsingar. Við höfum dæmi um mjög myndarlegt átak núverandi ríkisstjórnar vegna eldgosanna, en hvorki meira né minna en 190 millj. kr. var varið árið 2010 og 80 milljónum 2011 til Bjargráðasjóðs til að koma til móts við bændur og tjón þeirra á þessum svæðum. Þess vegna hef ég aðeins eina spurningu til hæstv. ráðherra. Hún er sú hvort ríkisstjórnin muni ekki standa jafn vel að baki (Forseti hringir.) þeim aðilum sem orðið hafa fyrir búsifjum í þessum náttúruhamförum og gert var svo myndarlega, meðal annars með aukafjárveitingu úr Bjargráðasjóði, þegar eldgosin urðu hér 2010 og 2011.