141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

raforkumál á Norðurlandi.

[14:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna. Við ræðum hér mjög alvarlegt mál og alvarlega stöðu sem upp er komin á Norðurlandi, ekki bara Norðurlandi eystra heldur líka víðar um Norðurland. Það er líka ljóst mál sem kom mjög vel fram á fundi atvinnuveganefndar í morgun að vandinn er sennilega útbreiddari og meiri en menn hugðu áður. Þó að menn séu ekki alveg búnir að ná utan um vandann og það verði ekki ljóst fyrr en kannski í næsta mánuði hvert tjónið er í raun er óhætt að fullyrða að það er umfangsmeira en menn höfðu ímyndað sér út frá fréttum í fjölmiðlum síðustu daga.

Fram kom í morgun að í Mývatnssveit telja menn að enn vanti þá 1.200–1.500 fjár af fjalli. Á annað hundrað fjár hafa drepist og enn vantar tugi fjár sem komið var heim.

Staðan í Skagafirði er einnig mjög alvarleg. Þar liggur þegar fyrir að mati Eiríks Loftssonar héraðsráðunautar að 300–400 fjár hafi drepist og telur hann að nú vanti 4.500–6.000 kindur af fjalli. Ástandið er langalvarlegast í gamla Lýtingsstaðahreppnum. Víða annars staðar í Skagafirði er ástandið miklu betra sem segir okkur að vandinn sem steðjar að þeim bændum sem lenda í þessu tjóni verður þar með hlutfallslega enn þá meiri.

Það er mjög mikilvægt að við reynum að ná utan um vandann sem fyrst þótt ég geri mér auðvitað grein fyrir því að aðstæður eru ekki mjög góðar núna. Það er nánast ógerningur að fara um fjöllin til að kynna sér aðstæður. Það eru líka mjög erfiðar aðstæður núna. Bændur eru komnir með fé heim. Þeir eru farnir að gefa hey en heyfengur er ekki mikill eftir mikið þurrkasumar. Það er áhyggjuefni hvernig menn eiga síðan að bregðast við þessu. Það eru auðvitað lög um Bjargráðasjóð og ég veit að hæstv. ráðherra hefur fullan vilja, eins og fram kom áðan, til að leggja sjóðnum til aukið fjármagn, sem mun sannarlega ekki veita af.

Gæðastýringarframlagið er magntengt. (Forseti hringir.) Nú munu þessar hamfarir mögulega hafa áhrif á hversu mikið gæðastýringarframlag menn munu fá ofan á beingreiðslurnar, eins og hæstv. ráðherra veit. (Forseti hringir.) Kemur til greina að skoða þessar aðstæður í því ljósi og bregðast þannig við að menn verði ekki fyrir sérstöku áfalli af þeim sökum varðandi gæðastýringarframlagið?