141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

raforkumál á Norðurlandi.

[14:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég eins og aðrir þakka þessa umræðu og vil byrja á því að lýsa ánægju minni með þá samvinnu og þann samhug sem bændur, björgunarfólk, starfsmenn Rariks og fleiri sýndu þegar þessar hamfarir geisuðu. Sem betur fer hefur ýmsu verið bjargað.

Það skiptir öllu máli að Bjargráðasjóður komi hér myndarlega inn. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra þess efnis að hann verði styrktur ef þeir fjármunir sem þar eru nú þegar duga ekki til þess að bæta tjónið.

Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að tjón á girðingum sem fyrirséð er að bændur verða fyrir verði einnig bætt, vegna þess að mér skilst að reglur Bjargráðasjóðs nái ekki þar yfir.

Svo vil ég líka beina þeirri spurningu til hv. þm. Kristjáns L. Möllers hvort hann sé ekki feginn því að Bjargráðasjóður hafi ekki verið lagður niður að hans frumkvæði vorið 2008, en hann lagði fram tillögu þess efnis.

Við verðum líka að horfast í augu við það að afhendingaröryggi á rafmagni er því miður bágborið víða um land. Hér hefur Þórshöfn verið nefnd. Það má einnig nefna Vestfirðina sem dæmi. Það stendur framþróun atvinnulífs þar fyrir þrifum, því miður. Það er einfaldlega ekki hægt að bjóða fyrirtækjum upp á að koma þangað þegar afhendingaröryggið er eins og raun ber vitni. Það er í sjálfu sér til skammar að fiskimjölsverksmiðjur á Þórshöfn, Akranesi og í Vestmannaeyjum skuli þurfa að reka hluta starfsemi sinnar eða keyra hana áfram á svartolíu. Nútíminn segir okkur að það gangi einfaldlega ekki, frú forseti.