141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

raforkumál á Norðurlandi.

[14:46]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þá órofa samstöðu sem hér ríkir um það að takast á við þetta og gera eins gott úr því og mögulegt er. Það er mikilvægt að safna upplýsingum og það er unnið að því hörðum höndum. Tölur um vanhöld sem stendur eru ískyggilegar en við hljótum að vona að eitthvað af því fé heimtist af fjalli. Það sem kæmi sér best fyrir okkur væru sunnanvindar og hlýindi þannig að snjóa tæki upp og það yrði fært um heiðar. Þá kæmi líka í ljós hvað liggur af fé sem farist hefur á afréttum.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spyr um gæðastýringarálagið og hvernig það er tengt inn í beingreiðslurnar. Ég vil segja um þetta mál eins og reyndar fleiri sem eiga eftir að koma að auðvitað er þetta eitt af því sem við þurfum að skoða og fara yfir. Ég ætla ekki að standa hér og gefa fyrir fram loforð eða vekja væntingar um eitthvað sem kannski reynist ekki auðvelt að takast á við eða reglur heimila ekki en ég heiti því að þetta verður skoðað eins og annað sem rétt og skylt er.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spyr um dreifikerfið. Við höfum nú þegar, eins og reyndar kom fram í máli mínu, dregið saman fyrstu upplýsingar frá orkufyrirtækjunum og fengið bráðabirgðagreinargerðir þeirra um umfang tjónsins og viðbrögð. Við höfum þegar gengið frá því að það verða teknar saman mun ítarlegri upplýsingar þegar þessir hlutir hafa skýrst sem og reynum við að draga lærdóm af því sem hérna hefur gerst til þess þá að breyta eftir atvikum eitthvað forgangsröðun í sambandi við styrkingu dreifikerfisins og aukið afhendingaröryggi.

Hv. þm. Þór Saari nefndi spurninguna um raflínur í jörð og bar saman Rarik og Landsnet. Ég held að það verði að hafa í huga að þar er staðan dálítið ólík því að það er mun minni kostnaður því samfara að leggja í jörð lágspennt dreifikerfi en háspennta meginflutningsnetið. Að því leyti til eru Rarik og Landsnet í ólíkri stöðu.

Varðandi tjón á girðingum eða önnur afleidd tjón bænda held ég að ég svari með sama hætti. Ég vil ekki gefa fyrir fram loforð eða yfirlýsingar um nákvæmlega hvernig tekist verður á við slíkt, en (Forseti hringir.) allt sem reglur Bjargráðasjóðs gera ráð fyrir að hægt sé að bæta verður að sjálfsögðu bætt. Það verður farið yfir það hvort meira þarf til til að gera upp þessa atburði þannig að ásættanlegt sé með það í huga að bændur geti síðan haldið áfram búskap sínum og það verði ekki brestur af neinu tagi í þeim efnum þrátt fyrir þetta áfall.