141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[14:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir framsögu fyrir þessu frumvarpi. Eins og kemur fram í því byggir það á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:

„Rík áhersla verður lögð á að tryggja rétt og þátttöku fólks af erlendum uppruna og lög um hælisleitendur verði endurskoðuð. Ný lög sett um málefni innflytjenda.“

Hér er verið að því en hér er jafnframt fjallað um að enn á eftir að taka upp tvær reglugerðir í íslenskan rétt sem snúa að innflytjendum, og líklega er það vegna þess að við erum í umsóknarferli að Evrópusambandinu.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja ráðherrann hvers vegna ekki hafi verið sett ein heildarrammalöggjöf um málefni innflytjenda þar sem þessar tvær reglugerðir frá Evrópusambandinu voru settar inn í lögin. Eins spyr ég hvers vegna ekki hafi verið sett inn í þetta frumvarp þessir svokölluðu kvótaflóttamenn. Mér finnst það mikill galli að lög um innflytjendur skuli vera á víð og dreif í lagasafninu í stað þess að hafa ein heildarlög.

Markmið laganna er meðal annars að innflytjendur skuli vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Hvernig er hægt að tryggja það með lögum? Hér stendur jafnframt að það sem ekki er fjallað um í frumvarpinu séu réttindi og skyldur innflytjenda. Um leið og einhverjum ákveðnum hópi eða einstaklingum eru færð réttindi, í þessu tilfelli þau réttindi að búa hér á landi, fylgja því jafnframt þær skyldur að gangast undir þau lög og þær reglur sem eru í gildi í því samfélagi, í þessu tilfelli á Íslandi. Hvers vegna var þetta ekki haft með í frumvarpinu þar sem þessir aðilar væru með það alveg á hreinu samkvæmt lögum hverjar skyldur þeirra væru í nýju samfélagi?