141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[14:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég var að vísa í er á bls. 4 í frumvarpinu, t.d. þetta með framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis og almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi, þannig að ráðherrann getur kynnt sér það.

Vinstri flokkarnir kunna eitt best af öllum hér á landi, og þótt víðar væri leitað, og það er að setja á stofn og efla opinberar stofnanir í kreppuástandi, fjölga opinberum starfsmönnum, setja reglugerðarheimildir í frumvörp sem koma til þingsins og framselja þar með lagasetningarvaldið úr þinginu og búa til og sitja á sjóðum sem ráðherra úthlutar úr sjálfur. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þetta er allt saman að finna í þessu frumvarpi. Sem ég segi er hér ekki lögð áhersla á að auka eða styðja eða styrkja almenna vinnumarkaðinn. Nei, enn á ný er verið að ríkisvæða og eyða dýrmætu fjármagni í ríkisstofnanir. Eins og ég fór yfir er þetta akkúrat stefna kratískra stjórna.

Í fjárlögum 2012 er gert ráð fyrir að tæpar 30 milljónir fari til þessa nýja seturs sem hæstv. velferðarráðherra fór yfir í framsöguræðu sinni. Við þessa stofnun eru 3,25 stöðugildi. Í ljósi þess sem kemur fram í frumvarpinu um að ekki eigi að auglýsa stöðurnar í hinu nýja setri sem á að setja á stofn heldur sé um einhvers konar endurráðningar að ræða spyr ég: Var það ekki meiningin og stefna vinstri stjórnarinnar að auglýsa allar stöður og passa upp á jafnrétti kynjanna í stöðuveitingum, sérstaklega í ljósi þess að nú hafa tveir ráðherrar í ríkisstjórninni brotið jafnréttislög, þótt ekki sé annað?