141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguræðu hans um þetta frumvarp. Eins og fram kemur er það engin heildarlöggjöf um málefni innflytjenda heldur er um að ræða löggjöf eða frumvarp sem tekur til skipanar stjórnsýslu í málefnum innflytjenda. Það er nauðsynlegt að formgera hana og festa í sessi.

Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu liggur fyrir að enn á eftir að ræða aðra þætti sem snúa að þessu. Þarna hefur verið vikið að tilskipun Evrópusambandsins um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis og fleira í þeim dúr. Frumvarpið er ekki flutt í neinu tómarúmi, málið á sér alllanga forsögu.

Þegar við skoðum þetta í ákveðnu samhengi blasir við að smám saman hefur það orðið verkefni sem við höfum orðið að takast á við hvernig við ætlum að skipa málefnum innflytjenda til lengri tíma, annars vegar í almennri löggjöf og hins vegar í stjórnsýslunni. Fyrir fáum áratugum var íslenska þjóðfélagið tiltölulega einsleitt, innflytjendur voru ekki margir. Á millistríðsárunum fengum við að vísu innflytjendur frá Mið-Evrópu sem auðguðu mjög menningarlíf okkar. Síðar komu innflytjendur frá fjarlægari löndum sem höfðu líka áhrif á menningu Íslands, meðal annars matarmenningu. Við sjáum það á tölum sem hafa birst að þeim hefur farið fjölgandi sem flust hafa til landsins af mörgum ástæðum. Meðan vöxtur var sem mestur í samfélagi okkar fluttu mjög margir útlendingar hingað til lands, unnu hér mjög mikilvæg störf sem ella hefðu ekki verið unnin og hefðu þar með ekki skapað þann arð sem þjóðfélagið sannarlega var að skapa með störfum þessa fólks.

Ef við skoðum þetta í 30 til 40 ára samhengi sjáum við að í sjávarútvegi hefur það tíðast mjög lengi að útlendingar hafa komið til starfa. Fyrst var það í kringum 1970, meðal annars á Vestfjörðum, Austfjörðum, Norðurlandi og víðar, að fólk kom frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu, hafði verið að ferðast um Evrópu, tók eins konar manndómsvígslu á þeim ferðum sínum, og komst að því að á Íslandi var hægt að vinna sér fyrir farareyrinum með því að setja sig niður úti um landið. Á sínum tíma auðgaði þetta fólk þau samfélög sem í hlut áttu. Það sem var þægilegt í þessum efnum var það að tungumálaþröskuldurinn var tiltölulega lágur. Þetta fólk talaði ensku. Þarna urðu til tengsl, hjónabönd og sambönd, sem hafði þau áhrif að þetta fólk settist að í viðkomandi byggðarlögum eða Íslendingar fluttu með sínum nýju mökum til annarra landa alveg eins og lífið gengur fyrir sig.

Eins og ég nefndi hefur þetta líka verið að breytast í þeim skilningi að útlendingar hafa komið frá fjarlægari heimsálfum þar sem tungumálaþröskuldurinn er hærri og menn hafa kannski borið með sér nýja og nýstárlegri menningu sem menn hafa verið að reyna að takast á við að skilja og meðtaka og kannski samsama sig í því. Það gerist í samfélögum að menningarstraumar renna saman og það hefur áhrif á samfélögin. Sumum finnst kannski stundum nóg um, en það breytir því ekki að þetta er veruleikinn og við hljótum sem siðmenntað þjóðfélag að reyna að búa þannig um hnútana að það gangi allt sem best fyrir sig svo að því fólki sem kemur til landsins finnist það velkomið og það fólk sem hér býr geti um leið tekið þátt í því, ásamt því fólki sem hingað flytur, að móta samfélagið til lengri tíma. Þá þurfum við að búa til einhvers konar leikreglur og reyna að koma í veg fyrir að þeir múrar sem annars gætu risið verði til staðar. Þetta vil ég rekja í þessu sambandi vegna þess að það sem við ræðum hér verðum við að skoða í þessu sögulega samhengi.

Eins og kemur fram í athugasemdum við þetta lagafrumvarp þá á þetta mál rætur að rekja að minnsta kosti til ársins 2003 þegar þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra skipaði nefnd til að fara yfir þessi mál. Sú nefnd skilaði síðan áliti í marsmánuði 2004 með ákveðnum tillögum. Á grundvelli þeirrar greinargerðar sem þá hafði verið lögð fram var síðan sett niður önnur nefnd á vegum þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra til að útfæra tillögur sem fram höfðu komið í þessari greinargerð, meðal annars um verkefni tiltekinnar miðstöðvar um þjónustu við innflytjendur. Árið 2008 var fyrsta þingsályktunartillagan um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda samþykkt undir forustu þáverandi hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra. Þannig má áfram telja.

Ég þekki þetta líka vegna þess að á sínum tíma var ég 1. flutningsmaður að þingsályktunartillögu sem allir þingmenn þáverandi Vestfjarðakjördæmis fluttu með mér um stofnun svokallaðrar nýbúamiðstöðvar. Gert var ráð fyrir að sú nýbúamiðstöð yrði sett á laggirnar á Ísafirði. Af hverju var það? Jú, það var vegna þess að þar var mjög mikil reynsla af samskiptum Íslendinga við fólk sem hafði flutt til landsins, hafði sett sig niður, var að vinna og bjó þar til lengri eða skemmri tíma. Sú reynsla var að mínu mati í meginefnum góð. Sambúðin gekk vel fyrir sig þrátt fyrir að tungumálaþröskuldurinn væri til staðar. Ekki þýðir þó að horfa fram hjá því að þetta getur líka reynt á innviði lítilla samfélaga. Þegar það gerist að fólk frá fjarlægum löndum, með ólíka menningu og ólíkan bakgrunn, ólík viðhorf jafnvel, kemur inn í lítil samfélög og hefur þar áhrif þá getum við ekkert horft fram hjá því að það kann að reyna á innviði slíkra samfélaga. Þá er verkefnið einfaldlega að takast á við það og reyna að sjá til þess að sú samlögun sem þarf að eiga sér stað gerist með sem friðsamlegustum og bestum hætti.

Reynslan sem við höfðum á Vestfjörðum, bæði af þessu og því sem ég nefndi áður með komu erlendra starfsmanna til landsins fyrir 40 árum, gerði það að verkum að þar var til staðar þekking sem skipti máli að menn reyndu að nýta til frambúðar, ekki bara fyrir þau samfélög sem eru á Vestfjörðum heldur líka fyrir landið í heild. Þess vegna var sú hugsun sett fram í þingsályktunartillögunni að skynsamlegt væri fyrir okkur að reyna að nýta þessa þekkingu, ekki bara á svæðisgrunni heldur á landsvísu. Þess vegna var hugsunin alveg frá upphafi — eins og menn geta séð ef lesið er í gegnum þingsályktunartillöguna, greinargerðina og umræðurnar sem fóru í kjölfarið — að skynsamlegast væri að þarna væri þessum málum á vissan hátt stjórnað, að því leyti sem stjórna ætti þessum málum í gegnum stofnun á vegum hins opinbera.

Það verður að segjast eins og er að baráttan fyrir þessari stofnun var á sínum tíma mjög hörð. Mjög hart var lagst gegn þessari hugmynd á sínum tíma, meðal annars héðan úr Reykjavíkurborg þar sem menn töldu að eins og öll önnur stjórnsýsla ætti þetta ekki heima á stað eins og Ísafirði heldur í Reykjavík. Ég hef flutt rökin sem við settum fram á sínum tíma um það af hverju skynsamlegast væri að reyna að nýta þá þekkingu og reynslu sem þarna var til staðar til að miðla henni um land allt. Að lokum var þessi þingmannatillaga afgreidd, undir forustu þáverandi formanns félagsmálanefndar, Arnbjargar Sveinsdóttur, sem ályktun Alþingis og kom það í hlut þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, að hrinda henni í framkvæmd. Stóðu þá á honum öll spjót, meðal annars héðan úr Reykjavík, úr stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Það er rétt að halda þessu til haga. Hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra á hrós skilið fyrir að hafa staðið þetta af sér, eins og hans var svo sem von og vísa, þess karlmennis sem hann er.

Þetta er upphafið að því að Fjölmenningarsetrið, sem síðar var kallað svo, komst á laggirnar og hefur starfað í skjóli Alþingis sem hefur veitt þessari stofnun atbeina sinn, bæði fjárhagslegan atbeina og stuðning að öðru leyti. Þó að ég sé enginn sérstakur talsmaður fjölgunar stofnana ríkisins fagna ég því að verið sé að formgera, á þann hátt sem hér er verið að gera, starfsemi Fjölmenningarsetursins og festa það í sessi. Ég hef að vísu ekki haft áhyggjur af því að menn gætu eftir 12 ár hent þessari stofnun út um gluggann eins og margan langaði til fyrir rúmlega áratug. Ég hefði talið að sú stofnun væri búin að vinna sér þann sess og sýna fram á mikilvægi sitt þannig að menn færu ekkert út í það. Engu að síður er það eðlilegur hlutur, þegar verið er að setja löggjöf um stjórnsýslu innflytjendamála, að kveðið sé á um starfsemi Fjölmenningarsetursins sjálfs.

Virðulegi forseti. Þetta er nú það sem ég hef fram að færa í þessum efnum. Eins og alltaf þegar frumvarp af þessu tagi er lagt fram þurfum við að fara yfir efnisatriðin. Hér kunna að vera alls konar hlutir sem við sjáum ekki við fyrstu sýn, að minnsta kosti ekki nýliðar í velferðarnefnd Alþingis, að mögulega þurfi að breyta. Þá er það þannig. Ég geri ráð fyrir að nefndin sem fær málið til meðhöndlunar, velferðarnefnd Alþingis, kalli eftir umsögnum eins og lög gera ráð fyrir. Þá munum við heyra þau viðhorf sem uppi eru í þessum efnum.

Stór hluti af frumvarpinu snýr að starfsemi Fjölmenningarsetursins og hér er verið að freista þess að setja á laggirnar heildarlöggjöf um stjórnsýslu um málefni innflytjenda. Það er kannski kórréttara heiti á frumvarpinu. En frumvarpið er um breytingu á löggjöf um málefni innflytjenda, sýnist mér. En hér er fyrst og fremst verið að taka á þeim afmarkaða þætti sem stjórnsýsluþátturinn er. Annað liggur þá eftir en þó vitum við að við höfum á undanförnum árum verið að setja löggjöf sem snýr að innflytjendum. Við höfum samþykkt þingsályktunartillögur sem lúta að málefnum innflytjenda. Það er ekki þannig að ekkert hafi verið gert í þessum efnum. Öðru nær. Heilmikið hefur verið gert sem hefur vissulega hjálpað okkur í gegnum alla þessa umræðu.