141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð hans og gott að hann rifjaði upp hver var aðdragandi þess að stofnunin fór vestur til að byrja með. Eins og þingmaðurinn lýsti var það með undirskriftum og þingsályktun sem samþykkt var af öllum stjórnmálaflokkum á þingi vegna þess að þarna var mjög blandaður hópur innflytjenda einmitt á þessu svæði.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson hvort honum þyki það nægilega tryggt í frumvarpinu að starfsemin verði áfram fyrir vestan. Hér er boðað að stofnuð skuli í raun ný ríkisstofnun á grunni stofnunarinnar fyrir vestan. Í fjárlögum er gert ráð fyrir, eins og ég kom að áðan, um 30 millj. kr. til setursins. Það kemur fram að starfsmenn stofnunarinnar nú þegar eru starfsmenn velferðarráðuneytisins. Óttast þingmaðurinn að þetta sé gert núna til að byrja með og síðan verði stofnunin flutt til Reykjavíkur? Það hefur mjög svo verið stefna þessarar ríkisstjórnar að toga til sín verkefni af landsbyggðinni yfir á höfuðborgarsvæðið. Telur þingmaðurinn að þetta sé nógu vel tryggt? Þarna er um að ræða 3,25 stöðugildi og það skiptir auðvitað máli fyrir Vestfirðinga. Það skiptir náttúrlega líka máli fyrir höfuðborgarsvæðið en ég mundi óska þess að þingmaðurinn færi aðeins yfir þetta.