141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki sagt að ég sé alveg öruggur með að Fjölmenningarsetrið verði áfram á Vestfjörðum, sérstaklega ekki meðan núverandi ríkisstjórn er því hún er mikið ólíkindatól eins og við vitum og gæti tekið upp á hverju sem er. Ég ætla þó ekki á þeim fáu mánuðum sem eftir lifa af lífi þessarar ríkisstjórnar að henni muni detta það í hug að færa starfsemina frá Ísafirði. Í greinargerðinni er að minnsta kosti vísað til starfseminnar á Ísafirði og ég er nokkuð viss um að um þessa stofnun hefur verið að skapast ágæt þverpólitísk samstaða.

Fjölmenningarsetur hefur hins vegar alltaf þurft að berjast dálítið mikið fyrir lífi sínu. Það hefur komið fyrir að þar hefur verið skorið mjög hressilega niður, m.a. á síðustu árum, og við höfum orðið að bregðast við og það hefur verið brugðist við. Ég hygg þó að smám saman sé mönnum að verða ljóst að hér er um að ræða alvörustofnun sem vinnur ekki bara á héraðsvísu. Það er alls ekki hugsunin að hún vinni bara á héraðsvísu, hún á að halda utan um, eins og kemur fram í frumvarpsgreinunum, mjög mikilvæg verkefni sem nýtast í þessum málaflokki um landið allt. Það var einmitt sú grunnhugsun sem bjó að baki þegar við þingmenn Vestfjarðakjördæmis á sínum tíma lögðum fram þessa þingsályktunartillögu, að þarna ætti þessi starfsemi að vera og stofnunin að sinna landinu í heild, á sama hátt og fjölmargar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu sinna landinu í heild.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hvað er afskekkt og hvað ekki. Reykjavík er dálítið afskekkt séð frá Bolungarvík, finnst mér. Menn verða að skoða þetta líka þannig. Þessi stofnun á Ísafirði hefur að mínu mati sinnt hlutverki sínu með miklum ágætum.