141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það þarf kannski að spyrja hæstv. velferðarráðherra að því hver sé framtíðarsýnin fyrir þessa stofnun, hvort hún eigi að vera áfram fyrir vestan eða ekki. Það kemur fram í frumvarpinu í ákvæði til bráðabirgða að ráðherra sé heimilt að skipa núverandi framkvæmdastjóra Fjölmenningarseturs í embætti forstöðumanns Fjölmenningarseturs til loka árs 2013. Frá þeim tíma skal embættið auglýst laust til umsóknar í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þeir starfsmenn velferðarráðuneytisins sem starfa hjá Fjölmenningarsetri verða áfram starfsmenn hjá hinni nýju stofnun. Þetta er það eina sem sagt er um þetta og samkvæmt frumvarpinu er því ekki tryggt að stofnunin verði áfram fyrir vestan. En hæstv. velferðarráðherra situr í salnum og getur líklega sagt okkur í ræðu eða andsvari á eftir hver framtíðarsýnin er.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hvað honum finnist um að verið sé að taka þessi innflytjendamál í litlum pörtum inn í þingið í stað þess að setja eina rammalöggjöf. Ef svo væri gætum við rætt um heildarsýnina í þessum málaflokki eins og til dæmis það hvað vantar mikið fjármagn til Útlendingastofnunar sem er raunverulega flöskuhálsinn inn í landið. Þar koma aðilar til landsins jafnvel vegabréfalausir á fölsuðum skilríkjum og annað og eru fastir í Keflavík svo mánuðum skiptir. En hér er verið að leggja fram lokastöðuna í þessum málum í stað þess að taka á þeim brýnu vandamálum sem við þurfum einmitt núna að setja fjármagn í, eins og til dæmis þessa miklu fjárþörf hjá Útlendingastofnun. Úrlausn á því væri líka til að gæta mannréttinda hjá þessum aðilum því það eru mjög litlar líkur á því að mannréttinda sé gætt þegar úrvinnslutíminn hjá íslenskum stjórnvöldum er svo mikill sem raun ber vitni. Hefði ekki verið skynsamlegt að hafa þessa heildarsýn við vinnslu þessa máls?