141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hér hefur verið haldin hver snilldarræðan á fætur annarri. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa skörulegu yfirferð yfir málefni innflytjenda áðan. Ég tel þó að það hafi verið fullkominn óþarfi hjá hv. þingmanni að taka undir með fyrri ræðumönnum um að það væri einhver hætta á því að þessi ríkisstjórn reyndi að ýta stofnunum út á land. Ég bendi á það að meðal annars sá sem hér stendur hefur gert sitt til að ýta verkefnum sem tengjast Evrópusambandsaðildarumsókninni út á land, m.a. í kjördæmi hv. þingmanns. [Hlátur í þingsal.] Í fjárlagafrumvarpinu er til dæmis að tillögu minni fjárveiting til að tryggja að áfram verði fimm manna starfslið í þýðingamiðstöð á Ísafirði. Það hefur tekist mjög glæsilega og þeir heimamenn sem hafa starfað þar eiga þakkir skildar.

Sömuleiðis af því að hér eru þingmenn úr öðrum kjördæmum vil ég minna á að á Akureyri er annað slíkt setur sem hefur verið treyst. Síðan hefur í tíð minni verið komið upp átta manna starfsstöð á Austfjörðum þar sem menn hafa staðið sig frábærlega við að þýða erfiðar reglur og tilskipanir frá Evrópusambandinu. (Gripið fram í: Og laga þær.) Laga þær oft, það var sérstaklega á árum áður að þurfti sérstakan þýðanda til að þýða íslenskuna sem þetta var á en það hefur breyst enda höfum við núna frábæra orðastjóra, svo ég beiti einu nýyrði ráðuneytisins.

Það var hins vegar fullkomlega þarft hjá hv. þingmanni að spara mér ómakið við að koma hingað upp og leiðrétta það sem kom fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Hún virtist telja hið ágæta Fjölmenningarsetur á Ísafirði kratíska uppáfinningu sem fór í taugarnar á henni, en það er vitanlega eins og fram kom í máli hv. þingmanns skilgetið afkvæmi vestfirskrar íhaldsmennsku og Framsóknarflokksins. Eins og hv. þingmaður sagði var þörf fyrir þetta á sínum tíma, þetta tók ekkert frá Reykjavík. Og af því að hv. þingmaður seildi nokkrum köpuryrðum til okkar þingmanna Reykvíkinga vil ég minna hv. þingmann á að einmitt þau snilldarrök sem hann færði hér áðan felldu mig á sínum tíma fyrir þessu máli.

Ég kom þó aðallega upp út af einu. Mér gefst svo sjaldan tækifæri til að vera sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur en hún nefndi að hún væri ekki glöð með að málefnum innflytjenda væri komið of víða niður í íslenskum lagaramma. Sumum hópum flóttamanna er nánast enginn staður fundinn. Það er ekki að sakast við hæstv. velferðarráðherra þar. Það eru fleiri en hann sem þar um véla. Hún nefndi kvótaflóttamenn og sagði að um þá væri ekki sérstaklega rætt í þessu frumvarpi og það er satt. Ég ber ábyrgð á því að sjá um hluta þess máls og staðreyndin er sú að það þarf taka skýrar og skarpar á því, meðal annars innan ramma ráðuneytis míns. Til dæmis er það utanríkisráðuneytið sem fjármagnar komu og undirbúning að komu kvótaflóttafólks til Íslands og það er enginn sérstakur fjárlagaliður til þess. Það fer bara eftir því hvaða uppsóp er eftir í kistunni ef að slíku kemur.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að uppi eru viðsjár í heiminum núna. Við vitum að það er borgarastríð í Sýrlandi og það hefur borist beiðni frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um að við tökum við kvótaflóttafólki sem er staðsett í Sýrlandi. Ég og hæstv. velferðarráðherra höfum fullan hug á því en þá rekur maður sig á að engir sérstakir peningar eru til þess. Það finnst mér miður. Ég vil segja það hér að við í mínu ráðuneyti höfum verið að skoða það sem að okkur snýr og ég tel að í framtíðinni eigi að vera sérstakur fjárlagaliður til að sinna þörfum af þessu tagi og mun beita mér fyrir því. Ég vildi að það kæmi fram í umræðunni að ég er sammála þessari athugasemd hv. þingmanns og hyggst gera mitt til að bæta þar úr.