141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta frumvarp enda er um 1. umr. að ræða því að svo fer það til nefndar. Tæknilega séð sé ég nokkra annmarka á frumvarpinu sem ég hef komið aðeins inn á.

Ég fór yfir reglugerðarheimildina áðan, en inn í þingið kemur tæpast nokkurt einasta frumvarp frá ríkisstjórninni nema um reglugerðarheimild sé að ræða. Í 9. gr. stendur að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga svo sem um starfsemi Fjölmenningarseturs og innflytjendaráðs. Ég átta mig ekki á því hvers vegna ekki er hægt að setja þetta með skilvirkari hætti inn í frumvarpið, sérstaklega í því ljósi að þetta er mjög viðkvæmur málaflokkur. Við vitum hvernig það er á bloggsíðum í samfélaginu. Ef einhver þingmaður leyfir sér að opna munninn um innflytjendamál er oft og tíðum reynt að gera hann ótrúverðugan og hann kallaður ýmsum nöfnum sem ég ætla ekki að hafa eftir hér. Við verðum að geta rætt þennan málaflokk af skynsemi og yfirvegun vegna þess að líklega er ásókn flóttamanna til Norðurlanda eitt stærsta verkefni sem við komum til með að standa frammi fyrir í nánustu framtíð. Við megum aldrei sofna á verðinum, aldrei nokkurn tíma. Við eigum fyrst og fremst að styrkja varnir okkar og gera það vel. Því sakna ég þess að þetta frumvarp skuli koma eitt fram og að það skuli ekki vera annaðhvort stutt af fleiri frumvörpum sem hægt væri að ræða samhliða eða á einhvern hátt efnisríkara.

Eins og hér kemur fram er ekki fjallað um réttindi og skyldur innflytjenda. Það á eftir að lögleiða þá tilskipun hér sem við þurfum að taka upp frá ESB og eins tilskipunina um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi. Auðvitað viljum við taka vel á móti því flóttafólki sem vill vera hér og það er þjóðhagslega hagkvæmt að koma því sem fyrst út í atvinnulífið. Sett voru skilyrði fyrir því að þetta fólk yrði að læra íslensku til að aðlagast íslensku samfélagi en í lagafrumvarpinu kemur fram að ekki sé verið að ræða það nú og er það sett á bið. Þegar einstaklingur fær réttindi ber hann líka skyldur og því má ekki gleyma. Það er ekki hægt að færa bara réttindi til einstaklings og svo er hann algjörlega ábyrgðarlaus gagnvart því samfélagi sem hann býr í.

Í markmiðslýsingu er tekið fram — þetta er lagafrumvarp, ekki þingsályktunartillaga — að allir skuli vera virkir í samfélaginu. Það er alltaf svolítið erfitt að setja svona texta inn í frumvörp sem verða seinna að lögum, þetta er svo matskennt. Það eru náttúrlega ekki refsiákvæði við þessu. Það er nokkuð skrýtið þegar markmiðsstefna í lagatexta er svona almennt orðuð og alhæft á þennan hátt.

Eins og fram hefur komið byggist þetta frumvarp á samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og var sett þar inn að lög um innflytjendur skyldu endurskoðuð. Það birtist í þessu frumvarpsformi. Þetta var að vísu líka lagt fram á síðasta þingi en náði ekki afgreiðslu. Við skulum staldra við þær staðreyndir sem koma fram í frumvarpinu og hvað valdi því að árið 2000 voru tæplega 8.500 innflytjendur hér á landi en núna 11 árum seinna eru þeir orðnir 25.693. Ásóknin í að koma hingað er augljóslega að aukast. Samkvæmt tölum frá Útlendingastofnun hefur orðið stórkostleg fjölgun á innflytjendum hingað til landsins síðan umsóknin um aðild að Evrópusambandinu var lögð inn sumarið 2009, sem er athyglisvert. Líklega er farið að spyrjast út að við tökum vel á móti flóttamönnum, ég veit það ekki.

Við verðum að vera sérstaklega varkár í þessum málum, sérstaklega í ljósi þess hvar á landakortinu okkar ágæta eyja er. Hér hafa komið upp mjög alvarleg atvik nú í sumar, sem dæmi. Hingað hafa komið vegabréfalausir einstaklingar eða jafnvel með fölsuð vegabréf sem reyna svo að komast héðan úr landi með skipum til fyrirheitna landsins í Ameríku. Við megum ekki verða sá stökkpallur hjá ákveðnum aðilum því að fagmenn í þessum geira segja mér að stundum séu þeir sem koma hingað til lands með fölsuð vegabréf eða vegabréfalaus fórnarlömb mansals og að jafnvel hafi þeir þurft að kaupa sér vegabréf eða viðkomandi aðilar eigi inni greiða hjá þeim. Við verðum að vera vel meðvituð um það að hér festi glæpaklíkur ekki enn frekar rætur.

Í fyrra vorum við í allsherjarnefnd vöruð við því sem kallað er krækjur í Noregi sem eru einstaklingar sem koma til landsins og eru jafnvel búnir að brenna fingraförin af sér, láta draga úr sér endajaxl og hvað annað og þykjast vera börn. Þeir eru ekki með vegabréf og geta ekki sannað hverjir þeir eru. Svo fer viðkomandi í aldursgreiningu og í ljós kemur að hann er skráður sem barn og þá kemur fjölskyldan til landsins á grunni fjölskyldusameiningar.

Við verðum náttúrlega að horfa til Noregs því að Norðmenn hafa verið aðeins á undan okkur. Þeir hafa líka verið mjög viljugir að taka við flóttamönnum og kvótaflóttamönnum, alveg til fyrirmyndar. Það er náttúrlega langbest ef hægt er að stýra þessu, eins og hæstv. utanríkisráðherra fór yfir, þannig að það sé þá gert af mikilli yfirvegun, ekki síst að þessum verkefnum sé tryggt eitthvert fjármagn og húsnæði sé tilbúið þegar þessir aðilar koma til landsins.

Ég geri líka athugasemdir við að lagt er til að hér verði skipað sex manna innflytjendaráð. Ég fór áðan yfir þann kratisma sem birtist orðið í öllum frumvörpum. Það eru nefndir og ráð og einhverjir sjóðir og fyrir rest á svo ráðherra að deila út peningum. Þetta á auðvitað fyrst og fremst að vera á fjárlögum og ákveðið faglega. Ráðherra á ekki að deila út einhverjum peningum því að lagt er til að þróunarsjóður innflytjendamála verði lögfestur í þessu frumvarpi. Hann hefur að vísu verið til frá árinu 2007 án þess að vera lögfestur en hér er gert ráð fyrir því að þetta sex manna innflytjendaráð skili tillögum til ráðherra sem tekur svo ákvörðun um hvaða verkefni eigi að hljóta styrki. Styrkveitingarnar sem ráðherrum er falið í þeim frumvörpum sem hafa verið að koma fram finnst mér ógeðfelldar. Mér finnst ekki rétt árið 2012 að fara á nýjan leik í handstýrt fjárveitingavald. Best er að allt sé uppi á borðum, fyrir fram ákveðið og einstaka ráðherrar úthluti ekki styrkjum.

Í þessum þróunarsjóði voru 10 milljónir árið 2011. Ég hef ekki kíkt í fjárlagafrumvarpið og séð hvað gert er ráð fyrir að þetta verði há upphæð í fjárlögum 2012. Ef mikill munur er á kem ég til með að vekja athygli á því.

Virðulegi forseti. Hér er lagt til að þeir starfsmenn sem nú þegar vinna við stofnunina haldi störfum sínum. Stofnunin hefur 3,25 stöðugildi. Ég skal ekki segja hvort of mikið sé í lagt, kannski ekki miðað við það sem kemur fram í frumvarpinu, þ.e. fjölgun innflytjenda á þessu 11 ára tímabili. Nú fer þetta í nefnd og kem ég til með að fylgja eftir því sem ég hef bent á og koma með breytingartillögur að því sem betur má fara.