141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:45]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég held að það sé mikilvægt að við áttum okkur á því að þetta frumvarp er fyrst og fremst um tvennt, um meginmarkmiðssetninguna og síðan er verið að formgera það sem í raunveruleikanum hefur verið að þróast á undanförnum árum og raunar meira en áratug varðandi þjónustuna við innflytjendur.

Hér er ekki tekið á málefnum flóttamanna sérstaklega heldur er verið að tala um innflytjendur. Eins og komið hefur fram voru þeir árið 2011 yfir 25 þúsund. Þeim hefur fækkað en eru samt enn vel yfir 20 þúsund. Það er mikilvægt að við sinnum þessum einstaklingum eins og öðrum í samfélaginu. Það er ekki verið að tala um nein forréttindi, heldur að hjálpa fólki að geta búið í íslensku samfélagi. Mesti flöskuhálsinn og það sem er erfiðast er yfirleitt upplýsingamiðlunin, það að koma skilaboðum, upplýsingum og kynningu á íslensku samfélagi til viðkomandi aðila. Þar bera auðvitað sveitarfélögin og viðkomandi stofnanir um allt land meginábyrgðina en þarna er sem sagt sett niður fjölmenningarsetur sem á að samhæfa þessar aðgerðir, vera í stefnumótuninni og reka á eftir. Þannig kemur ríkisvaldið að þessu. Ég ætla bara að segja það líka, af því að það kom fram í umræðunni að þetta væri einhver stofnun sem yrði svo bara flutt fljótlega í burtu og ekkert hægt að treysta á, að einmitt núna er verið að formgera það hvar stofnunin á að vera og að hún sé byggð á lagalegum grundvelli. Það held ég að skipti mjög miklu því að það er alveg klárt að það er verið að lýsa því yfir að þessi stofnun eigi að vera til í einmitt þessu hlutverki og vera á Ísafirði.

Það voru átök á sínum tíma um Alþjóðahúsið og það er engin launung á því. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur líka farið ágætlega yfir það og það er einmitt rétt sem kom fram í máli hans um að þar átti í hlut stofnun sem var fyrst og fremst rekin af sveitarfélaginu Reykjavíkurborg og félögum þar í kring. Ég held að menn ættu að hugleiða hvernig þau þjónusta innflytjendur sérstaklega, hvort sem það er borgin eða aðrir, og þá geta menn metið sjálfir hvort þeir vilja hafa sérstakt alþjóðahús eða sinna þessum hópi öðruvísi.

Þetta fer til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd. Þar verður málið auðvitað skoðað sérstaklega. Hér hefur verið rætt um að það sé óeðlilegt að það séu einhverjar reglugerðarheimildir. Ég held að það séu mjög skýr ákvæði um hvað reglugerðirnar hugsanlega geta verið vegna þess að það er upptalning á verkefnum, hvort sem er Fjölmenningarsetursins eða innflytjendaráðs. Þar af leiðandi er ramminn mjög skýr. Hið sama gildir um þróunarsjóðinn. Ég veit ekki hvað hefur tíðkast hér áður fyrr en það er alveg klárt að úthlutun úr sjóðum er birt opinberlega. Það er formlegt ferli um hvernig fjallað er um það. Það er settur rammi utan um hvort einhver sérstök áherslusvið eru auglýst og svona sjóðir hafa verið í gangi. Framkvæmdin á þeim úthlutunum hefur verið algerlega árekstralaus og án athugasemda og ég vona að svo verði áfram.