141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 149/2012 um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

99. mál
[16:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er mér mikil ánægja að leita hér líka heimildar Alþingis á því að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2012 um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn, sem fjallar um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna, og þá um leið að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/104/EB um vinnu á vegum starfsmannaleigna.

Rétt er að taka fram, herra forseti, vegna þess að hér hafa orðið töluverðar umræður um starfsmannaleigur allar götur síðan árið 2005 og að af slíkum málum hafa sprottið erfið dómsmál millum Íslands og erlendrar stofnunar, að þessi tilskipun sem ég ræði nú varðar ekki nýlegt dómsmál fyrir EFTA-dómstólnum í máli Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi, nr. E-12/10. Það fjallaði um útsenda starfsmenn og tilskipun sem að þeim lýtur, 96/71/EB, samanber lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör þeirra. Það eru lög nr. 45/2007.

Meginmarkmið með þeirri breytingu sem ég mæli fyrir er að setja sérstakan ramma um kjör og réttindi starfsmanna á vegum starfsmannaleigna um leið og tekið er tillit til þess að fyrirtæki þurfa vissulega ákveðinn sveigjanleika við ráðningu starfsfólks. Í tilskipuninni er kveðið á um að ráðningarkjör starfsmanna á vegum starfsmannaleigna skuli ekki vera lakari en þeirra starfsmanna sem ráðnir hafa verið beint til hlutaðeigandi notendafyrirtækja. Hér er með öðrum orðum, herra forseti, verið að reyna að setja undir þann leka sem við höfum sum í ádeilum okkar á fyrri tilskipanir kallað félagsleg undirboð. Þar er meðal annars kveðið á um að starfsmenn á vegum starfsmannaleigna skuli líka vera tímanlega upplýstir um störf sem kunna að losna innan þeirra fyrirtækja sem nýta starfskrafta þeirra á þeim tíma sem þeir starfa fyrir það. Þetta er gert til þess að auka tækifæri þeirra til að öðlast ótímabundna ráðningu með beinu ráðningarsambandi milli þeirra og notendafyrirtækisins.

Starfsmannaleigunni er sömuleiðis samkvæmt þessu fortakslaust óleyfilegt að krefja starfsmenn um greiðslu fyrir að útvega þeim atvinnu hjá notendafyrirtækinu eða gera ráðningarsamning eða stofna til ráðningarsambands við notendafyrirtækið eftir að starfsmannaleigan hefur tekið að sér verkefni fyrir það tiltekna fyrirtæki. Þá er gert ráð fyrir því að á þeim tíma sem starfsmaður á vegum starfsmannaleigu sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki skuli veita honum nákvæmlega sama aðgang að hvers konar aðbúnaði og sameiginlegri aðstöðu sem starfsmenn viðkomandi notendafyrirtækis njóta, svo sem samgöngum eða mötuneyti, nema gild rök leiði til annars vegna hlutlægra þátta.

Aðildarríkin eiga einnig að sjá til þess að ógild verði eða hægt verði að ógilda öll ákvæði sem banna eða hindra að ráðningarsamband komist á milli notendafyrirtækisins og starfsmanns á vegum starfsmannaleigu eftir að verkefni hans hjá notendafyrirtækinu á vegum starfsmannaleigunnar lýkur. Það er sem sagt verið að auka rétt þeirra starfsmanna sem koma til starfa hjá tilteknu notendafyrirtæki í gegnum starfsmannaleigu og auka möguleika á því að stofna sjálfstætt ráðningarsamband milli viðkomandi starfsmanna og viðkomandi fyrirtækis eftir það tímabil sem starfsmannaleigan hefur haft milligöngu um að kraftar þeirra séu nýttir hjá fyrirtækinu. Þetta er mjög jákvætt.

Það skal líka samkvæmt tilskipuninni kveðið á um viðeigandi ráðstafanir ef svo fer að starfsmannaleigur eða notendafyrirtæki fari ekki að ákvæðum tilskipunarinnar og gerist brotleg við ákvæði hennar og þá einkum varðandi viðurlög við brotum og viðeigandi málsmeðferð til handa þeim sem á er brotið. Aðildarríkin geta sett lög eða stjórnsýslufyrirmæli sem eru launamönnum hagstæðari eða til að auðvelda eða heimila gerð kjarasamninga milli aðila vinnumarkaðarins sem eru launamönnum hagstæðari en ella.

Innleiðing á tilskipuninni sem ég nefndi áðan, 2008/104/EB, kallar á breytingu á lögum um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, og mörg okkar munum ákaflega vel eftir og börðumst raunar fyrir, töldum á þeim tíma að þau gengju ekki nægilega langt. Hæstv. velferðarráðherra hyggst leggja fram lagafrumvarp á þessu löggjafarþingi til þess að innleiða ákvæði tilskipunarinnar.

Sem og í hinum fyrri málum sem ég hef mælt fyrir í dag munu þær lagabreytingar sem af frumvarpi hæstv. ráðherra hljóta ekki hafa neinn umtalsverðan kostnað í för með sér eða stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi. Af því að þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar var hún eins og allar slíkar tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Þess vegna óska ég með þessari tillögu eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst þannig að aflétta megi þessum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að tillögu þessari verði vísað til hv. utanríkismálanefndar þegar umræðu um hana lýkur í dag.