141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég ætla að fjalla um sama mál og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, þ.e. útstreymi gjaldeyris sem fréttir birtust um á forsíðu blaðanna í morgun þar sem talað var um að 18 milljarðar hefðu farið handstýrt út úr landinu til ákveðinna erlendra fjármálastofnana og aðila sem áttu aflandskrónur.

Það þarf enginn að draga í efa að það sé gert með vilja ríkisstjórnar landsins. Við hljótum því að spyrja okkur að því hver stefna ríkisstjórnarinnar sé þegar kemur að þessari snjóhengju. Er ætlunin virkilega sú að hleypa öllu þessu fjármagni úr landi með pólitískum ákvörðunum sem teknar eru af ríkisstjórninni og Seðlabankanum og láta síðan almenning greiða fyrir það? Við hljótum að þurfa að kalla eftir stefnu í þessum málum því að það verður klárlega eitt stærsta málið á komandi missirum hvernig taka eigi á þessari snjóhengju. Í ljósi þeirra frétta sem okkur berast núna af því að verið sé að handstýra því að erlendar fjármálastofnanir fái að taka út jafnvel tugi milljarða króna og í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hefur ítrekað, í Icesave-málinu og fleiri málum, verið tilbúin að taka stöðu með erlendum fjármagnseigendum, sem komu og gömbluðu í íslensku samfélagi, fremur en með almenningi er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessu máli. Ef þetta væri ekki gert með stuðningi ríkisstjórnarinnar væri farið að volgna undir seðlabankastjóranum. Það mun ekki gerast því að þetta er gert með fullum stuðningi ríkisstjórnarinnar. Það er ágætt að almenningur landsins fái að vita það. En ég kalla eftir því að menn fari að ræða þessi mál af alvöru. Á virkilega að hleypa þessum fjármunum úr landi með þessum hætti? Ég segi nei.