141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem fór hér rangt með þegar hún talaði um Íslandsmet í málþófi. Eins og allir vita er Íslandsmethafi núverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, og við eigum auðvitað að halda því til haga. Hún lagði mikið á sig til að ná því Íslandsmeti og það er ósanngjarnt að vera að eigna einhverjum öðrum það.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að við hv. þingmenn ásamt þjóðinni sjáum á forsíðu Morgunblaðsins (Gripið fram í.) — þetta er ekki tilkynnt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd heldur á forsíðu Morgunblaðsins, að hér eru einhverjir vildarvinir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans að fá útgreiddan gjaldeyri. (Gripið fram í.) Seðlabankinn svarar því ekki hvaða reglur eru í gangi. Hann svarar því ekki. Og hv. þingmönnum stjórnarliða finnst þetta bara í fínu lagi, heyri ég. (Gripið fram í.) Ég held að það liggi alveg fyrir, virðulegi forseti, að hv. stjórnarþingmenn ættu að sjá sóma sinn í því að fara fram á það að þetta verði upplýst strax (BVG: Búið að því.) í þinginu og fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd, þingheimi og þjóð. Því að ef það er þannig, virðulegi forseti, að við séum komin í þá stöðu að vildarvinir ríkisstjórnarinnar séu að fá útgreiddan gjaldeyri en ekki aðrir og ekki séu gagnsæjar reglur, erum við að tala um gríðarlega alvarlega hluti.

Ég vil líka minnast á annað, af því að það var upplýst í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að hér er kominn gamall draugur fram í formi stjórnarfrumvarps. Nú á að fara af stað með fjársýsluskattinn aftur með þeim hætti að ekki á að taka hann af hagnaði fyrirtækjanna heldur leggja hann allan á laun, laun bankastarfsmanna og það mun koma (Forseti hringir.) harkalega niður, sérstaklega á þeim starfsmönnum sem starfa hjá smærri fjármálafyrirtækjum, sama hvar þeir eru á landinu. (Forseti hringir.) Ég tel rétt að upplýsa þetta, virðulegi forseti.