141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eftir einn mánuð og einn dag verður gengið til kosninga, líklega, um stjórnarskrá. (Gripið fram í: Ertu ekki viss?) Nei, ég er ekki viss, frú forseti. Sú stjórnarskrá hefur ekkert verið rædd hér á Alþingi efnislega nema af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og þá er það kallað málþóf. Nú á þjóðin að fara að greiða atkvæði um stjórnarskrá sem ekkert hefur verið rædd á þingi og lítið úti í þjóðfélaginu, og það eru mörg hundruð málsgreinar sem á að fara að kjósa um.

Ég ætla líka að koma inn á það sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi um stimpilgjöldin. Stimpilgjöldin vinna gegn samkeppni vegna þess að ef menn ætla að skipta um banka og flytja lánin sín yfir í nýjan banka þá skulu þeir borga skatt til ríkisins. Sömuleiðis er þetta skattur á fátækt. Fólk sem lendir í vandræðum og þarf að skuldbreyta og annað slíkt og jafnvel skipta um banka í kjölfar þeirra vandræða skal borga skatt. Þessi skattur er, eins og nafnið gefur til kynna, stimpilgjald en það er löngu hætt að stimpla veðskjöl. Ég upplifði það snemma á ævinni að slík skjöl voru stimpluð. En því er löngu hætt og nú er þetta stimpilgjald út í hött. Ég fagna því að menn ætla að taka það burt en hins vegar finnst mér slæmt að menn gera ráð fyrir tekjum af því í fjárlögum.