141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram um stöðu evru og krónu vil ég taka fram að það er ekkert nýtt í þeirri niðurstöðu Seðlabankans að ákveðnir kostir fylgja því að taka upp evruna, það eru einnig ákveðnir ókostir. Það eru ákveðnir kostir við það að hafa krónuna og það eru ákveðnir ókostir.

Hvað varðar umsóknina um ESB-aðild hefur það verið sagt með nokkrum rökum að það skipti máli að taka upplýsta afstöðu hvað það mál varðar. Hluti af þeirri afstöðu byggir á því hvernig samningur á milli okkar Íslendinga og ESB mundi líta út. Hvernig farið yrði með sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og önnur mál sem skipta okkur Íslendinga miklu máli. Auðséð er að dregist hefur úr hófi fram að fá niðurstöðu í þau mál og ekki fyrirsjáanlegt hvenær það verður. En hitt er, og það skiptir miklu máli, að þær breytingar sem eru nú að verða hjá ESB vegna evrunnar, vegna stöðu hennar og hvaða grundvöllur er undir þeirri mynt er augljóst að nú þegar hafa orðið miklar breytingar og það verða að öllum líkindum enn þá meiri breytingar á samstarfi evruríkjanna. Veltum því aðeins fyrir okkur, virðulegi forseti, að ef gengið hefði verið frá öllum þessum þáttum sem ég nefndi áðan varðandi sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og annað og við ættum að taka afstöðu til þessarar spurningar núna, yrði það einhver upplýst umræða? Nei, virðulegi forseti. Vegna þess að svo stóran hluta vantar í þá umræðu, þ.e. hvert fyrirkomulag ríkjasambands evruríkjanna verður. Það er nokkuð langt í það að menn sjái til lands hvað það varðar. Augljóst er að breytingarnar munu verða. Ef við Íslendingar ætlum að taka upplýsta ákvörðun um það væri skynsamlegt að gera hlé á (Forseti hringir.) þessum viðræðum, sjá hverju fram vindur og kalla síðan eftir umboði hjá þjóðinni ef menn vildu halda áfram en þá þannig að hægt væri að taka einhverja merkingarbæra umræðu og komast að skynsamlegri niðurstöðu.