141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

staða atvinnumála.

[15:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að gefa sér tíma til að koma hingað og ræða við okkur um atvinnumál. Eins og allir vita er sterkt atvinnulíf grundvöllurinn að því að hér geti orðið aukinn hagvöxtur og að við getum verið með sterkt velferðarkerfi.

Frá því að ég tók sæti á þingi hafa margar umræður farið fram um atvinnumál. Maður hefur áhyggjur af því hver staða fyrirtækjanna í landinu er, sérstaklega þeirra minni og meðalstóru.

Ekki alls fyrir löngu birtist okkur nýtt fjárlagafrumvarp þar sem fram kom stóraukin skattheimta á fyrirtækin í landinu. Það er spurning hvort fyrirtækin geti styrkt sig og hvaða áhrif þetta hefur á starfsemi þeirra, fjárfestingargetu o.s.frv. Við getum tekið fram þreföldun á virðisaukaskatti á gistiþjónustu. Þá tel ég atvinnulífið ekki hafa átt von á því að einföldum á álagningu vörugjalda ætti að leiða til 800 millj. kr. skattahækkunar eins og kemur fram í frumvarpinu, en það mun að sjálfsögðu fara beint út í vöruverðið. Þá þekkjum við umræðuna um veiðigjöldin og skattlagninguna á sjávarútvegsfyrirtækin. Þau fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi og eins þau sem starfa í kringum sjávarútveginn og þjónusta hann hafa gríðarlegar áhyggjur af afkomu sinni í ljósi þessara miklu skattahækkana.

Í samhengi við þetta getum við skoðað atvinnuþátttöku á vinnumarkaði. Nú getum við séð það á vef Hagstofunnar hvernig atvinnuþátttaka hefur þróast. Á árinu 2010 var hlutfall hinna starfandi 75,5%, en á árinu 2012 er það komið niður í 74,8%. Þar til hliðsjónar verðum við að skoða þann fjölda sem er utan vinnumarkaðar sem voru árið 2010 43.900, en eru árið 2012 46.200. Þetta eru tölur sem við eigum að hafa áhyggjur af.

Það er því rétt að það komi fram hér hjá verkstjóra ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra, hvaða áætlun ríkisstjórnin hefur til að styrkja starfsemi fyrirtækjanna í landinu þannig að þau geti vaxið og dafnað. Hvað er það? Eru það einhverjar breytingar sem ríkisstjórnin hyggst beita sér fyrir varðandi umhverfi fyrirtækjanna? Hefur ríkisstjórnin áform til framtíðar litið um að lækka skatta á fyrirtækin þannig að þau geti náð að fóta sig betur, náð að fjárfesta og hugsanlega að fjölga hér störfum sem hlýtur að vera markmið okkar allra? Með því að fjölga störfum fækkum við atvinnulausum, þá aukum við hagvöxt í landinu og ættum að ná sterkari stöðu í efnahagsmálum okkar í heild.

Þá langar mig að fá það fram hjá hæstv. forsætisráðherra hvort skattstefna ríkisstjórnarinnar hafi haft einhver áhrif á það með hvaða hætti neðanjarðarhagkerfið svokallaða hefur þróast. Hefur að mati forsætisráðherra svört atvinnustarfsemi aukist í kjölfar þessara miklu skattahækkana ríkisstjórnarinnar?

Hvernig birtast áherslur ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum okkur ef við horfum á fjárlagafrumvarpið í heild? Hvar sjáum við þess stað að ríkisstjórnin sé að reyna að grípa til einhverra aðgerða til að efla stöðu atvinnumála í landinu?

Þegar við lítum yfir fjárlagafrumvarpið sjáum við að innan fjárheimilda forsætisráðuneytisins er liður sem heitir óbyggðanefnd. Stefnan er að bæta við rúmum 50 millj. kr. í þann lið. Vissulega skapast við það einhver störf, en þau veita nú varla mikla framlegð í þjóðarbúið. Þetta er eitt dæmi sem ég gat fundið þar sem ég sé fram á fjölgun starfa, en mun svo sem ekki skila okkur miklu.

Byggðirnar í landinu og sveitarfélögin, mörg hver, hafa sent okkur ályktanir vegna ástands atvinnumála. Við þekkjum ályktanirnar frá sjávarútvegsbyggðunum þar sem menn lýsa miklum áhyggjum af þeirri óvissu sem greinin býr við. Nú liggja skattahækkanaáformin á borðinu. Við sjáum til dæmis að fjárfesting í Vestmannaeyjum í sjávarútveginum hefur verið á ís. Menn sjá ekki fram á að þar verði mikil fjárfesting á næstunni. Það er miður. Þetta er mikið högg. Menn hafa miklar áhyggjur á þeim slóðum af þróuninni hvað varðar fiskveiðistjórnarkerfið og eins af skattamálunum, að ógleymdu því sem birtist okkur í fjárlagafrumvarpinu sem er hækkun á tryggingagjaldinu sem er þvert á loforð og að því er ég hélt stefnu stjórnvalda gagnvart atvinnulífinu í landinu.

Ég vonast til þess að þessi umræða verði upplýsandi og að við fáum einhverja heildarmynd á stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart (Forseti hringir.) atvinnulífinu í landinu.