141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

staða atvinnumála.

[15:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ágætt að halda því til haga hér í umræðunni að með hruni bóluhagkerfisins töpuðust ríflega 15 þús. störf á Íslandi og þjóðarframleiðsla dróst saman um ríflega 13%. Eitt mikilvægasta verkefni okkar á liðnum árum hefur verið að auka þjóðarframleiðslu á ný og fjölga hér störfum og hefja sjálfbæra lífskjarasókn. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að opna þessa umræðu og gefa mér tækifæri til að ræða þetta mál.

Undanfarin tvö ár hefur hagvöxtur verið viðvarandi og hár hér á landi í alþjóðlegum samanburði, kaupmáttaraukning umtalsverð og atvinnuleysi hefur hvergi gengið eins hratt niður og á Íslandi á þessum tíma. Það sem af er þessu ári hefur atvinnuleysi verið 1,5 prósentustigum minna en á sömu átta mánuðum í fyrra og er nú um 4,8%. Í OECD-löndunum er atvinnuleysi nú um 8% og aðeins örfá lönd með minna atvinnuleysi en hér á landi. Þetta segir sína sögu. Þá hefur náðst mikill árangur með vinnumarkaðsaðgerðum. Annars vegar nefni ég átaksverkefnið Nám er vinnandi vegur en með því hafa nær þúsund atvinnuleitendum verið tryggð námsúrræði. Hins vegar hefur átakið Vinnandi vegur beinst að langtímaatvinnulausum og alls hafa 1.400 atvinnuleitendur fengið vinnu vegna átaksins.

Sjávarútvegur, ferðaþjónusta og hinar skapandi greinar eflast með hverju ári sem líður. Umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir munu áfram skapa hundruð starfa og fjöldi erlendra fjárfestingarverkefna fyrir hundruð milljarða króna er í farvatninu. Þá hefur ríkisstjórnin kynnt stórhuga og framsækna fjárfestingaráætlun sem miðar að því að auka hagvöxt og fjölga störfum enn frekar en leggur jafnframt nýjar áherslur í atvinnulífinu. Aukið veiðigjald sem sjálfstæðismenn börðust á móti fyrr á þessu ári gerir okkur mögulegt að nærfellt tvöfalda framlög til rannsókna og tækniþróunar, auk þess að skila 400 milljónum í sóknaráætlanir landshluta, sem verður veruleg lyftistöng fyrir landsbyggðina, ásamt samgöngubótum sem fjármagnaðar verða af veiðileyfagjaldi og flýta bæði Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöngum um tvö til þrjú ár.

Þá er enn í gildi skattafsláttur fyrir nýsköpunarfyrirtæki vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar sem nemur um 1.100 milljörðum kr. á næsta ári. Þá má einnig nefna að í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á skapandi greinar, græna hagkerfið, innviði ferðaþjónustu o.fl. þar sem ekki er eingöngu einblínt á stóriðju. Með þessu er lagður mikilsverður grunnur að nýsköpun í atvinnulífinu sem kemur ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum til góða.

Þá væri fróðlegt að heyra hvort þessi framfaramál verða slegin af komist sjálfstæðismenn til valda þar sem forustumenn þeirra hafa boðað afnám veiðigjaldsins fái þeir völd á ný. Það væri fróðlegt að vita hvort hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir er sammála þeim áformum flokks síns.

Frú forseti. Sjálfstæðismenn klifa iðulega á því að fjárfestingar séu í lágmarki og skattheimta í hámarki, eins og hv. þingmaður gerði hér áðan. Vissulega hefur hrunið og afleiðingar þess dregið verulega úr fjárfestingum en þær eru þó meiri nú en 1995 og 2002 þegar sjálfstæðismenn og Framsóknarflokkur stjórnuðu. (Gripið fram í.) Á fyrstu sex mánuðum ársins 2012 jókst fjárfesting um 19,3% samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2011. Skattheimtan var einnig meiri í tíð Sjálfstæðisflokksins fyrir hrun, árin 2005 og 2006 námu skatttekjur ríkisins 31,5% af landsframleiðslu en í ár er talan 27,3% og á því næsta enn lægri, þ.e. 27,1%. Staðreyndin er sú að fólk og fyrirtæki halda meiru eftir af tekjum sínum nú en þegar þeir flokkar sem hæst hafa um skattpíningu stýrðu ríkiskassanum. Þetta eru staðreyndir málsins sem hv. þingmaður ætti að kynna sér.

Alþjóðlegur samanburður um skattlagningu á fyrirtæki sýnir að óvíða í OECD-ríkjunum er tekjuskattur á fyrirtæki lægri en hér á landi og þessir skattar eru til dæmis miklu hærri annars staðar á Norðurlöndunum og hið sama gildir um tryggingagjaldið sem er væntanlega hvað lægst hér á landi meðal OECD-ríkjanna.

Hv. þingmaður spurði um áhrifin á neðanjarðarhagkerfið og þá peninga sem þar eru faldir og koma ekki til skatts. Við höfum öll af því áhyggjur og ríkisstjórnin hefur sérstaklega verið að skoða í samráði við atvinnulífið hvernig á þessu megi taka. Ég vil segja það, virðulegi forseti, að svartagallsraus stjórnarandstöðunnar um skattpíningu þessarar ríkisstjórnar er tilefnislaust og ágætt að nefna hér í lokin að af 120 stærstu fyrirtækjunum hafa 80 farið í gegnum endurskipulagningu á síðastliðnum þrem árum en það er hluti af hreingerningu eftir hrunið og valdatíma stjórnar Sjálfstæðisflokks í Stjórnarráðinu.

Merkin um aukin umsvif í atvinnulífinu og lífskjarasókn landsmanna blasa því alls staðar við.