141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

staða atvinnumála.

[15:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég aðhyllist þá stefnu almennt í atvinnumálum að það eigi að vera hlutverk hins opinbera, ríkisvaldsins, að skapa skilyrðin, skapa sem bestan grundvöll fyrir sem fjölbreyttasta starfsemi, sem best svigrúm fyrir framtak einstaklinganna og fyrirtækja og samtaka einstaklinga.

Mér finnst áhugavert að velta fyrir mér hvort við séum í raun og veru að gera þetta. Vissulega segja menn þá grundvallarsetningu að hið opinbera eigi að einbeita sér að því að skapa skilyrðin en í raun og veru er umræðan oft efnislega á allt annan veg. Tökum orkumálin sem dæmi. Það er mjög rík krafa frá mjög mörgum þingmönnum, síendurtekið í umræðum um atvinnumál, að ríkið beinlínis fari inn í svið orkumála, hvað eftir annað, og reisi nánast með handafli verksmiðjur víða um land með því að selja orku á kostnaðarverði eins og gert hefur verið. Þetta er staðbundin handstýrð atvinnuuppbygging sem byggir á því viðhorfi að við eigum nánast að gefa frá okkur orkuna og þá eigum við að halda áfram að virkja og virkja.

Önnur leið sem byggði meira á því að við mundum einbeita okkur að því að byggja upp skilyrðin væri sú að leyfa markaðnum að ákveða orkuverðið, eins og Landsvirkjun vill, virkja bara í sátt við náttúruna, koma þeirri orku sem við virkjum í sátt við náttúruna í hátt verð. Það er líklegt að grænn fjölbreyttur iðnaður sé reiðubúinn að greiða það verð. Síðum gætum við notað arðinn sem kemur inn í þjóðarbúið til að skapa skilyrðin, til að lækka skatta ef menn vilja gera það, til að greiða niður skuldir og byggja upp samkeppnissjóði til að auka fjölbreytni.

Ég hvet fólk til að lesa nýlega skýrslu Seðlabankans um gjaldeyrismál í þessu ljósi. Þar er hvað eftir annað vikið að því að höfuðvandinn í íslensku atvinnulífi sé einhæfni. Það tengist líka krónunni. Í krónunni birtist ákveðin atvinnustefna. Við tökum síendurtekið, í hvert einasta skipti sem krónan fellur, (Forseti hringir.) pening frá fjölbreytninni, frá hinum mörgu og færum hinum fáu. (Forseti hringir.) Hinir fáu í þessu tilviki eru útflutningsatvinnugreinarnar, útgerðin og áliðnaðurinn. (Forseti hringir.) Báðar greinar eru bundnar framleiðslukvóta (Forseti hringir.) og auka þess vegna ekkert við sig. Er þetta skynsamlegt? Ég segi ekki.