141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

staða atvinnumála.

[16:01]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka þessa umræðu, hún er mikilvæg og sérstaklega hvað varðar samhengið milli atvinnumála og efnahagsmála. Staðreyndirnar eru mjög skýrar, atvinnuleysið hefur minnkað hratt frá hruni, hefur lækkað úr rúmum 9% eftir hrun í um 5% um þessar mundir. Hagvöxturinn hefur sömuleiðis verið stöðugur og á uppleið og er umtalsvert meiri en þekkist í nær öllum ríkjum OECD. Hann hefur verið drifinn áfram af auknum útflutningi, fjárfestingu og einkaneyslu og það er sérstakt fagnaðarefni að atvinnuvegafjárfesting hefur tekið hraustlega við sér upp á síðkastið, stefnir í 11% á þessu ári sem er rétt innan við meðaltalið frá árinu 1990 upp á 12,2%.

En betur má vissulega ef duga skal og því voru það afar mikilvæg skilaboð sem ríkisstjórnin sendi frá sér síðastliðið vor um sérstakt þriggja ára átak í fjárfestingum. Þar birtist einmitt þessi mikla áhersla, sem er kannski kjarninn í atvinnustefnunni, á jafnræði milli atvinnugreina og á sérstakan stuðning við vaxtargreinar sem geta aukið þjóðartekjur okkar í framtíðinni. Þar hefur græna hagkerfið verið nefnt, skapandi greinar og ekki síst uppbygging ferðamannastaða og friðlýstra svæða sem er auðvitað forsenda þess að við náum áfram að styrkja ferðaþjónustuna í verki.

Ég vil líka leggja áherslu á þá miklu yfirlýsingu um jafnræði atvinnugreina sem fólst í stofnun sameinaðs ráðuneytis atvinnuvega og nýsköpunar. Þar er grundvallaratriði að atvinnugreinarnar, hefðbundnar sem vaxandi, sitji við sama borð hvað varðar opinbera stoðþjónustu og eru miklar vonir bundnar við að þetta muni renna styrkari stoðum undir fjölbreytt atvinnulíf í framtíðinni..

Hér hefur verið rætt um svarta atvinnustarfsemi og ríkisstjórnin setti á fót verkefnið Allir vinna einmitt til að skapa sérstaka hvata fyrir starfsemi að koma upp á yfirborðið. Það hefur skilað á annað þúsund nýjum ársverkum síðan það átak fór í gang og er dæmi um þá hvata sem hægt er að nýta til þess að vinna bug á svartri atvinnustarfsemi. Þetta þarf að gera í fleiri greinum, ekki síst í ferðaþjónustu.