141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

staða atvinnumála.

[16:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kom til þessa síðasta þingvetrar á kjörtímabilinu full bjartsýni á að hér mundi eitthvað breytast. Hér hefur hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir mjög málefnalega umræðu um stöðu atvinnumála hér á landi og spyr jafnframt þeirra málefnalegu spurninga til hvaða aðgerða ríkisstjórnin ætli að grípa til að bæta starfsumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og hvar hafi birst áherslur ríkisstjórnarinnar til að styrkja atvinnulífið.

Þá er skemmst frá því að segja að hér kemur hæstv. forsætisráðherra upp eina ferðina enn og talar um hrunið og aftur hrunið og að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn séu hrunflokkar. Þetta er ekki boðlegt. Tíma þingmanna er illa varið með því að efna til hugsanlegra málefnalegra umræðna þegar sömu svörin koma trekk í trekk eins og gömul rispuð plata.

Í ljósi þessa, frú forseti, ætla ég að leyfa mér að benda á að hæstv. forsætisráðherra hefur nú setið fimm ár í ríkisstjórn og hefur haft fimm ár til þess að koma í fyrsta lagi stefnumálum sínum til framkvæmda og í öðru lagi að koma atvinnulífi af stað og minnka atvinnuleysi og koma þjóðinni á rétta braut. En nei, hér er höfðinu stungið í steininn að venju, ekki litið fram á veginn og hér er hæstv. forsætisráðherra, sjálfur hrunráðherrann, einn af þeim ráðherrum sem sat í sjálfri hrunstjórninni, Jóhanna Sigurðardóttir, ekki með neina einustu framtíðarsýn.

Frú forseti. Þetta er kulnun í starfi. Ég tel að það eigi að rjúfa þing sem fyrst og boða til kosninga því að við höfum ekki efni á því sem þjóð að (Forseti hringir.) fara í gegnum enn einn veturinn þar sem stjórnvöld hafa enga framtíðarsýn.