141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

staða atvinnumála.

[16:06]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og málshefjanda, Unni Brá Konráðsdóttur, fyrir að taka upp þetta málefni núna á haustdögum sem okkur er öllum hugleikið, þ.e. stöðu atvinnumála. Nú fjórum árum eftir hrun er ljóst að við erum að vinna okkur út úr mestu efnahagserfiðleikunum og því mikilvægt að hafa skýra stefnu um hvernig stuðla eigi að öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi til langs tíma litið.

Hv. þingmaður leggur fram margar og ólíkar spurningar sem ekki er hægt að svara nema að litlu leyti í svo knappri umræðu. Ég vil leggja áherslu á þann viðsnúning sem orðinn er í stefnumótun. Horfið er frá margra ára stóriðjustefnu og áherslu á hagkvæmni stærðarinnar á öllum sviðum. Við lærum af reynslunni og leggjum áherslu á fjölbreytileika, sjálfbærni og stöðugleika til lengri tíma eins og stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur verið frá upphafi. Lögð er áhersla á grænt hagkerfi þar sem hagkerfið og atvinnulífið tekur tillit til náttúrunnar, umhverfisáhrifa og samfélagslegra þátta. Þrátt fyrir mikla efnahagsörðugleika hafa verið sköpuð skilyrði fyrir eflingu og styrkingu skapandi greina, nýsköpun og þróunarvinnu og verið er að styrkja enn frekar hugvísindi og tækniþekkingu. Það liggur fyrir að það er það skref sem þarf að taka.

Átakið Nám er vinnandi vegur er hluti af því sem gripið var til á þeim tíma sem mestu erfiðleikarnir voru en það þarf að styrkja hugvísindin enn frekar. Ég tel að það sé mjög ábyrgt að leggja fram áætlun, fjárfestingaráætlun til 2015 þar sem áætlað er að sköpuð verði, ef allt gengur eftir, 4 þús. ný störf og þar af 11 þús. bein og óbein eða afleidd störf. Þetta er sóknaráætlun sem er ábyrg og gengur vonandi (Forseti hringir.) eftir öllum til hagsbóta.