141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

mat á umhverfisáhrifum.

87. mál
[16:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hálfkaldranalegt að taka þátt í umræðu um þetta frumvarp eftir að það átti að fara fram áðan atvinnuuppbyggingarumræða sem varð nú að litlu, a.m.k. miðað við svör forsætisráðherra, því að í þessu frumvarpi er enn frekar þrengt að fyrirtækjum í landinu. Hér er verið að setja atvinnugreinar undir sérstaka viðauka, 1. og 2. viðauka, og þrengja að þeim vegna þess að hér er um að ræða fjölgun tilkynningarskyldra framkvæmda.

Þetta er mikill pappír hérna og málið er lagt fram í annað sinn. Það væri óskandi að ríkisstjórnin gæti haft svona mikinn hraða á þeim málum sem skipta raunverulegu máli fyrir landsmenn en hér er þetta EES-mál og þau virðast alltaf njóta forgangs í þinginu.

Undir 1. viðauka flokkast landbúnaður, skógrækt og fiskeldi, námuiðnaður, orkuiðnaður, framleiðsla og vinnsla málma, steinefnaiðnaður, efnaiðnaður, matvælaiðnaður, textíl-, leður-, timbur- og pappírsiðnaður, gúmmíiðnaður og grunnvirki. Svona má lengi telja. Það er verið að innleiða einhverjar tilskipanir sem eiga alls ekki við hér á landi, eins og til dæmis með námuiðnaðinn, og svo er í 2. viðauka enn frekari útfærsla.

Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra kom inn á að það væri um rýmkun að ræða og að 2. viðauki mundi gera tilslökun varðandi sambærilega málsmeðferð og var í 3. viðauka. Getur ráðherrann farið betur ofan í það hvað átt er við með (Forseti hringir.) því þegar talið er að þetta frumvarp eigi að leiða til einfaldari málsmeðferðar (Forseti hringir.) fyrir þær framkvæmdir sem falla hér undir þar sem enn er verið að bæta í flokkana sem eru undir?