141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

bókasafnalög.

109. mál
[17:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til bókasafnalaga en frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu á grundvelli tillagna nefndar sem þáverandi menntamálaráðherra skipaði þann 24. júní 2003 til að kanna hvort hagkvæmt væri að setja heildarlög sem gætu tekið til allra tegunda bókasafna og skilgreina hlutverk þeirra og stöðu í safnakerfi landsins.

Nefndin lauk störfum 10. október 2006 og skilaði svo af sér frumvarpstillögu sem er stuðst við að verulegu leyti í þessu frumvarpi. Með því er lagt til að sett verði heildarlöggjöf um starfsemi bókasafna sem kemur í stað laga um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997, og laga um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982, og þá eru í frumvarpinu breytingar á lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 142/2011, sem eru til samræmingar við gjaldtökuheimildir.

Frumvarpinu er ætlað að endurspegla þær breytingar sem hafa orðið á starfsumhverfi bókasafna á liðnum árum sem felast meðal annars í því að bókasöfn hafi í auknum mæli nýtt samskipta- og upplýsingatækni í starfsemi sinni og samstarfi á milli bókasafna. Við þekkjum það til að mynda sem notum bókasöfnin og notum gegnir.is til að leita að bókum og ritum. Hlutverk bókasafna felst í auknum mæli í því að veita notendum milliliðalausa þjónustu en ekki einungis vera safn bóka þangað sem notendur leita. Hvað á ég við með því? Jú, bókasöfn eru ekki eingöngu vörslustaður bóka og rita heldur eru þau líka mjög mikilvægar stofnanir sem veita notendum sínum fræðslu og leiðsögn um lendur veraldarvefsins og hvernig unnt er að leita upplýsinga á þeim vettvangi.

Sameining sveitarfélaga og byggðasamlaga fleiri sveitarfélaga hafa síðan breytt rekstrargrundvelli margra almenningsbókasafna og skólasafna.

Sameiginlegt skráningar- og þjónustukerfi bókasafna, Gegnir, sem ég nefndi hér áðan, hefur verið tekið í notkun. Það skiptist í 13 stjórnunareiningar. Söfnin á höfuðborgarsvæðinu raðast saman eftir safnategundum, en utan höfuðborgarsvæðisins eru allar safnategundir saman í fjórum landshlutaeiningum.

Kominn er landsaðgangur að rafrænum gagnagrunnum og tímaritum með samvinnu allra safnategunda í landinu. Þetta þekkja auðvitað hv. þingmenn, á hvar.is.

Opnaður var nýlega leitarvefur fyrir efni allra bókasafna landsins og ýmissa annarra gagnasafna, og stefnt að því að efla hann enn frekar í framtíðinni. Hann er á léninu leitir.is.

Síðan nefni ég að tekið hafa gildi ný lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem við samþykktum í fyrra, lög nr. 142/2011.

Við undirbúning frumvarpsins var höfð hliðsjón af ákvæðum norrænna laga um sama efni, leiðbeinandi reglum Evrópuráðsins um löggjöf á sviði bókasafna og lögum sem Alþingi hefur nýlega sett um safna- og menningarstarfsemi. Ég nefndi áðan lögin um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn en einnig má nefna safnalögin og lögin um menningarminjar.

Helstu nýmæli í frumvarpinu eru þau að taldar eru upp allar tegundir bókasafna sem eru reknar fyrir opinbert fé og kveðið á um samstarf þeirra og samvinnu og þau séu hluti af bókasafnakerfi landsins.

Með því að fella niður gildandi lög um almenningsbókasöfn er meðal annars horfið frá því að landinu sé skipt í bókasafnsumdæmi og í hverju umdæmi skuli starfandi umdæmissafn. Þess í stað er lögð áhersla á samstarf safna og hugsanlegan samrekstur þar sem slíkt þykir henta.

Felld eru út ákvæði um bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og fangahúsum. Ekki þykir ástæða til að kveða sérstaklega á um þjónustu í slíkum stofnunum í lögum sem þessum, m.a. í ljósi breytinga sem orðið hafa á skipulagi og starfsemi slíkra stofnana, auknum möguleikum til afþreyingar og ég hef líka nefnt hér þær miklu og hröðu tæknibreytingar sem hafa orðið í samfélaginu og breytt hlutverki bókasafna. Þau eru ekki aðeins bókasöfn heldur upplýsingastofnanir í orðsins fyllstu merkingu. En ég vil þó minna á síðari málslið 2. mgr. 7. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna.“

Hann á að tryggja að allir eigi þennan kost hvort sem þeir dvelja á slíkum stofnunum eða eru annars staðar staddir í lífinu.

Það er nýmæli að lagt er til að stofnað verði bókasafnaráð sem skuli vera ráðherra og stjórnvöldum til ráðgjafar, og vinni meðal annars að stefnumótun um starfsemi bókasafna, setji reglur um söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um bókasöfn, setji reglur um úthlutanir úr bókasafnasjóði og veiti umsögn um umsóknir um styrki úr sjóðnum og sinni loks öðrum verkefnum sem ráðherra kann að fela ráðinu. Ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna verður lögð af og verkefni hennar flytjast til bókasafnaráðs.

Rétt er líka að vekja athygli á þeim nýmælum að lög um Blindrabókasafn Íslands eru felld inn í þessi lög og öll ákvæði um starfsemi þess einfölduð. Jafnframt er nafni þess safns breytt, m.a. með vísan til aukins hlutverks þess við að veita öðrum þjóðfélagshópum en blindum nauðsynlega þjónustu. Settur verði á fót samráðshópur skipaður af fulltrúum helstu notendahópa í stað stjórnar samkvæmt eldri lögum. Þetta tengist auðvitað því að Blindrabókasafnið þjónustar ekki einungis blinda heldur ekki síður lesblinda lesendur og til að mynda þá sem daprast hefur sjón með aldrinum og ég nefni þá eldri borgara sérstaklega.

Það er lagt til að stofnaður verði bókasafnasjóður sem hafi það að markmiði að efla starfsemi bókasafna með því að styrkja rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni í greininni. Ekki hafa verið sett sérstök ákvæði um það hversu stór sá sjóður eigi að vera, en ég vek athygli á því að ekki er gert ráð fyrir neinum fjármunum í þann sjóð samkvæmt umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Ég lít svo á að það sé mikilvægt að við getum byggt þennan sjóð upp hægt og bítandi því hann er að mínu viti mjög mikilvægur við eflingu bókasafnastarfs í landinu.

Loks nefni ég skýra heimild til gjaldtöku vegna útlána, þjónustu, dagsekta og bóta og kannski er ástæða þess að þetta er lagt til sú, eins og hv. þingmönnum er vel kunnugt, að við ræddum talsvert sektarheimildir á síðasta þingi, ef mig misminnir ekki. Ætlunin með þessu er að þessar heimildir séu samræmdar þannig að öll bókasöfn starfi á sama grunni.

Við undirbúning frumvarpsins var leitað eftir samráði við forstöðumenn helstu bókasafna og annarra safna, Samband íslenskra sveitarfélaga, ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna og Upplýsingu, Félagi bókasafns- og upplýsingafræða. Drög að frumvarpinu voru kynnt í opnu samráðsferli á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins í nóvember 2011 og bárust mjög margar gagnlegar ábendingar um efni frumvarpsins, m.a. frá þeim aðilum sem ég hef hér nefnt og líka frá faghópi bókasafnsfræðinga á framhaldsskólastigi og Landskerfi bókasafna hf. Við endanlega gerð frumvarpsins eins og það er núna lagt fyrir Alþingi hefur verið tekið tillit til ýmissa af þessum ábendingum.

Hæstv. forseti. Verði þetta frumvarp að lögum má gera ráð fyrir auknu samstarfi bókasafna og nokkrum breytingum á því hvernig þjónustan er hugsuð sem ég tel, eftir að hafa skoðað þessi mál, að sé í raun eðlileg þróun á breyttu hlutverki bókasafna. Þau eru ekki einungis bókasöfn heldur lykilstofnanir í því að gera almenningi kleift að nálgast upplýsingar með alls kyns hætti, hvort sem það er í gegnum hefðbundnar bækur eða á tæknivæddari hátt. Eins og áður er sagt er lagt til að starfsemi Blindrabókasafns Íslands falli inn í heildarlög um bókasöfn og lagarammi um starfsemi þess einfaldaður og um leið er safninu gert kleift að veita öðrum þjóðfélagshópum en blindum nauðsynlega þjónustu. Síðan er lögð til samræming gjaldtökuheimilda eins og ég nefndi áðan.

Ég vona, virðulegi forseti, að í ljósi þess að ég fæ að mæla fyrir þessu máli svo snemma fái hv. allsherjar- og menntamálanefnd góðan tíma til að fara yfir málið. Það hefur verið lengi í undirbúningi og fyrst og fremst er ætlunin sú að skapa góðan og vandaðan lagaramma um þessa mjög svo mikilvægu starfsemi í samfélaginu.

Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.