141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

bókmenntasjóður o.fl.

110. mál
[17:44]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þetta yfirlit yfir frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókmenntasjóð o.fl. Ég vil byrja á að taka undir það að ég held að það sé mjög til bóta að breyta heiti laganna í lög um stuðning við íslenskar bókmenntir, og það hefur reyndar orðið mér sjálfum ákveðinn innblástur varðandi þingsályktunartillögu um stuðning við íslenska tónlist, sem lögð hefur verið fram á þessu þingi.

Ég fagna frumvarpinu og tek undir með hæstv. ráðherra að ég tel afar mikilvægt að í fjárlagagerðinni fyrir næsta ár sé sú viðleitni sem hér er metin til að tryggja að áfram verði stuðlað að öflugri kynningu á íslenskum bókmenntum á erlendri grundu. Það er algjörlega nauðsynlegt, þegar við ráðumst í metnaðarfull verkefni eins og bókamessan í Frankfurt var, að tryggð sé markviss eftirfylgni með slíkum verkefnum, því að það skilaði sannarlega heilmikilli athygli fyrir íslenskar bókmenntir, en hún fjarar hratt út ef því er ekki fylgt eftir.

Ég vildi beina einni fyrirspurn til hæstv. ráðherra í tengslum við einmitt fjárveitingar til eflingar íslenskra bókmennta og það er samhengi þessa frumvarps við fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar þar sem sérstaklega er fjallað um allmyndarleg framlög í verkefnasjóð skapandi greina og fyrirspurnin lýtur að því hvaða samhengi hún sjái á milli þessara þátta, hvort þess megi vænta að úr þeim sjóði geti runnið fjármagn til eflingar íslenskra bókmennta og hvort hún sjái fyrir sér ákveðnar útfærslur í þeim efnum.