141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil í allri vinsemd segja að stóryrði og svikabrigsl forustumanna atvinnulífsins eru orðin nokkuð hvimleið. Ég tel fráleitt að halda því fram, virðulegi forseti, að stærstu loforðin sem ríkisstjórnin átti aðild að í þessum kjarasamningum hafi verið svikin. Ég vísa því til föðurhúsanna.

Ég fullyrði þvert á móti að ríkisstjórnin hefur lagt sig alla fram til að láta þau mál sem að henni snúa ná fram að ganga. Það hefur sannarlega verið ágreiningur um túlkun einstakra atriða og sannarlega hafa sameiginleg markmið aðila um einstök fjárfestingarverkefni, um þróun gengismála o.s.frv., ekki náð fram að ganga eins og var rætt um í sameiginlegu yfirlýsingunni. En ég spyr: Ætla menn í alvöru að halda því fram að það sé ríkisstjórninni að kenna og hún beri til dæmis ábyrgð á töfum á verkefnum eins og Helguvík þar sem deilt er um orkuverð? Ætla menn í alvöru að halda því fram að ríkisstjórnin beri ábyrgð á alþjóðlegu fjármálakreppunni sem hefur tafið mörg fjárfestingarverkefni hér? Ég spyr: Ætla menn í alvöru að halda því fram að ríkisstjórnin hafi svikið ýmis fyrirheit sem við lofuðum sem er verið að vinna að? Hvað á ég að nefna? Vaðlaheiðargöng, spítala o.s.frv.

Ég held, virðulegi forseti, að allir sanngjarnir menn hljóti að sjá að ríkisstjórnin hefur lagt gríðarlega mikið af mörkum til að kjarasamningarnir nái fram að ganga. Það er erfitt að þurfa eilíflega að sitja undir þessum svikabrigslum forustumanna SA og ASÍ sem koma að fjölmörgum verkefnum þrátt fyrir að þeir séu að segja sig úr lögum við ríkisstjórnina á þessu tímabili, og vinni í mörgum stórum málum, vinnumarkaðsmálum og gjaldeyrismálum, sameiginlega með ríkisstjórninni.