141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

bætt vinnubrögð á þingi.

[10:44]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu svari. Ég held hins vegar að það sé mjög erfitt að gera svona samkomulag á hverjum tíma. Ég held að betra sé að við breytum reglunum, breytum lögum þannig að það sé alveg skýrt hvernig reglurnar eru til framtíðar. Förum þessa norrænu leið, áætlum ræðutímann í öllum málum og gefum minni hlutanum þann neyðarhemil sem er að minni hluti þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu í umdeildum málum.

Það er rétt, þetta hefur ekki verið misnotað í Danmörku til dæmis þar sem þetta er svona, af því að þingmenn vita að þeir geta ekki verið að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu út af einhverjum smotterísmálum, þjóðin væri ekki til í það. Þar er þetta ekki misnotað.

Fyrst þegar ég flutti þetta mál var ég ein á málinu. Nú eru 14 þingmenn á málinu. Þeir eru úr öllum flokkum nema einum. Það er enginn úr Sjálfstæðisflokknum. Ég er viss um að sjálfstæðismenn vilja líka taka á þessu til lengri tíma litið. Ég vil brýna hæstv. forsætisráðherra í þessu máli vegna þess að það er oft þannig að þegar menn eru komnir í stjórnarandstöðu, eins og gæti nú gerst hjá Samfylkingunni á næsta kjörtímabili, við vitum það ekki, þá virðast þeir gleyma. (Forseti hringir.) Ég vona að þeir flokkar sem taka við, hverjir sem þeir verða, berjist fyrir þessu og stjórnarandstaðan á næsta kjörtímabili sjái ljósið og samþykki þetta (Forseti hringir.) ef það verður ekki gert miklu fyrr.