141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

launamál á ríkisstofnunum.

[10:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hlusta á þessar umræður og heyra í ræðukóngi þingsins, en enginn hefur haldið lengri ræður en hæstv. forsætisráðherra sem sagði áðan að núna væri ræðutíminn allt of langur. Enginn mun þó slá Íslandsmet hæstv. forsætisráðherra í málþófi.

Eins og við vitum settu spunameistarar Samfylkingarinnar nýlega af stað nokkuð sem kallast verkstjórnarvald forsætisráðherra. Eftir breytinguna á Stjórnarráðinu eru verkefni hæstv. forsætisráðherra tvenns konar; annars vegar verkstjórnarvald og hins vegar jafnréttismálin. Við þekkjum að ráðherrar í þessari ríkisstjórn eru síbrotamenn þegar kemur að jafnréttislögunum.

Eitt mál hefur nokkuð verið í umræðunni, það er forsætisráðherraákvæði sem hæstv. forsætisráðherra beitti sér fyrir í kjararáði, sem er svolítið norður-kóreskt, þ.e. að enginn mætti hafa hærri laun en forsætisráðherra. Á þeim tíma var bent á að í heilbrigðismálum kæmi það bara niður á einu einstaklingi, þ.e. þáverandi forstjóra Landspítalans sem var fyrsti kvenmaðurinn sem gegndi því embætti. Nú sjáum við hins vegar að því lagaákvæði hefur ekki verið framfylgt af hæstv. ríkisstjórn og er skiljanlegt að hæstv. ríkisstjórn vilji halda í hæft fólk eins og núverandi forstjóra Landspítalans sem hefur staðið sig með eindæmum vel.

Ég vildi þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra sem hefur komið að þessum málum sem verkstjóri, annað gæti ekki verið:

1. Hefur hæstv. ríkisstjórn einhvern tíma farið eftir þessum lögum?

2. Ætlar hæstv. forsætisráðherra ekki að beita sér fyrir því núna að breyta þessum lögum? Það er augljóst að ekki er farið eftir þeim, í það minnsta ekki núna, og þau eru auðvitað algalin.