141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

launamál á ríkisstofnunum.

[10:49]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna á verkstjórnarvald forsætisráðherra og þar með þær breytingar sem orðið hafa á Stjórnarráðinu, sem ég held að séu til mikilla framfara.

Hv. þingmaður telur að lögum sem kveða á um að enginn skuli hafa hærri laun en forsætisráðherra að því er dagvinnulaunin varðar, hafi ekki verið framfylgt. Ég held að það sé ekki rétt hjá honum, ég held að það hafi gengið eftir að því er varðar dagvinnulaunin. Ég held að enginn sé með hærri laun en forsætisráðherra nema forseti Íslands þegar kemur að dagvinnulaununum, en þegar kemur að heildarlaununum hygg ég að það séu um það bil tíu manns í stjórnkerfinu með hærri laun en forsætisráðherra. Það lagaákvæði var sett á á sínum tíma þegar við vorum að reyna að átta okkur á hvernig rétt væri að vinna á hruninu. Þá var ein leiðin sem við bentum á sú að koma þyrfti í veg fyrir ofurlaunaþróun hjá ríkinu og það var tilgangurinn með þessu ákvæði. Sú aðgerð hefur tekist að mínu mati.

Nú er frumvarp fyrir þinginu — eða hvort það er komið fyrir þingið — þar sem lagðar eru til breytingar á þessu ákvæði þar sem undanþága frá þessu ákvæði er heimil í ákveðnum tilvikum. Það er þegar um er að ræða störf hjá hinu opinbera sem eru á samkeppnismarkaði. Í því sambandi eru menn sérstaklega að hugsa um Landsvirkjun, svo það sé bara sagt beint út, og að því er varðar Landsbankann þar sem bankastjóri Landsbankans er greinilega með tvöfalt eða þrefalt lægri laun en bankastjórar annarra banka. Þarna er byrjað að vinda ofan af vandanum, við hljótum að gera það þegar við teljum að réttur tími sé til þess. Við erum að byrja að vinna okkur þannig út úr vandanum að við náum jöfnuði í ríkisfjármálum á næsta ári. Þá finnst mér tímabært (Forseti hringir.) að huga að því að fara inn í frekari breytingar en við erum að gera með því frumvarpi (Forseti hringir.) sem ég held að liggi nú fyrir þinginu.