141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

fjölgun starfa.

[11:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra tók þátt í umræðum í gær um stöðu atvinnumála í landinu. Í þeirri umræðu var meðal annars vakin athygli á nýjum upplýsingum frá Hagstofunni frá því í gærmorgun sem leiða í ljós að störfum í landinu hefur ekki fjölgað. Það fækkar að sönnu á atvinnuleysisskrá en þeim sem taldir eru utan vinnumarkaðar fjölgar og störfum fjölgar ekki.

Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af þessu í ljósi þess að það hefur verið með stærstu verkefnum núverandi ríkisstjórnar frá upphafi, að sögn, að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Að vinna bug á atvinnuleysi með fjölgun starfa.

Svo þess sé getið þá notar Hagstofan samevrópska mælikvarða til þess að mæla þessa hluti. Þessi niðurstaða Hagstofunnar leiðir til þess, ef mælt er í ágúst á þessu ári, að störfum hefur ekkert fjölgað frá því í fyrra og ekkert fjölgað frá því í hittiðfyrra. Er það ekki áhyggjuefni að mati hæstv. forsætisráðherra?