141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

fjölgun starfa.

[11:02]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því af hverju störfum er að fækka. Á hverjum tíma er alltaf nokkuð stór hluti vinnandi fólks utan vinnumarkaðarins. Það er mismunandi hve hátt hlutfall það er, en ef miðað er við fólk á aldrinum 16–64 ára hefur hlutfallið verið á bilinu 17–18% eða 19%.

Það verður líka að taka með í reikninginn að ríkisstjórnin hefur farið í vinnumarkaðsaðgerðir sem hafa kannski haft þau áhrif að dregið hefur úr þeim fjölda sem er á vinnumarkaði. Þar má nefna átakið Vinnandi vegur þar sem 1.400 störf voru undir. Þá eru atvinnuleysisbætur viðkomandi látnar ganga til atvinnurekandans og hann greiðir mismuninn á bótunum og kjarasamningum. Síðan höfum við líka tekið það upp í góðu samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins að greiða fyrir því að þeir sem eru atvinnulausir fari í nám. Það eru aðallega langtímaatvinnulausir sem hafa nýtt sér þessar aðgerðir og ungt fólk. Það eru 1.000 manns atvinnulausir sem hafa farið í nám í staðinn fyrir að vera á atvinnuleysisbótum. Þetta er leið sem til dæmis þær þjóðir hafa farið sem hafa lent í svipuðum hremmingum og við, Finnar og Svíar, þ.e. að setja töluvert mikla peninga í vinnumarkaðsaðgerðir sem leiða til fækkunar á vinnumarkaðnum.

Eins verður að líta til þess að skekkjumörkin í tölum Hagstofunnar sem hv. þingmaður var að vitna í eru talsverð og það er ekki sama hvort litið er á tölur innan mánaðar eða á mánuði eða hvort miðað er við ársfjórðunga. Ef miðað er við ársfjórðunga eru það töluvert aðrar tölur en Hagstofan hefur sett fram þegar hún miðar við mánuð. Við getum til dæmis litið til þess að á milli annars ársfjórðungs áranna 2011 og 2012 (Forseti hringir.) hefur fólki fjölgað verulega á vinnumarkaði. Á því eru auðvitað skýringar, en maður hefur samt sem áður áhyggjur af því ef fólki er að fækka á vinnumarkaðnum. (Forseti hringir.) Ég minni á að það eru miklar skekkjur í þessum útreikningum hjá Hagstofu og á þessu eru skýringar eins og þær vinnumarkaðsaðgerðir sem við höfum gripið til.