141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

fjölgun starfa.

[11:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forsætisráðherra. Í fyrsta lagi telst það fólk sem tekur þátt í vinnumarkaðsaðgerðum og verkefnum sem tengjast opinberum stofnunum vera á vinnumarkaði. Það er því ekki skýring sem hæstv. forsætisráðherra getur gripið til í þessu sambandi. Það er ekki þannig. Það er rangt.

Í annan stað sýna niðurstöður Hagstofunnar að ef borin eru saman sambærileg tímabil 2010, 2011 og 2012 hefur störfum ekkert fjölgað. Ekki neitt. Hæstv. forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni í síðustu viku að það hefðu orðið til 4.600 ný störf á þessu ári. Það kann að vera en þá hafa einhver 4.600 störf glatast á móti því niðurstöður Hagstofunnar benda ekki til þess að störfum í landinu hafi fjölgað. Fólki á atvinnuleysisskrá hefur fækkað en því miður er það ekki vegna þess að störfum í landinu hafi fjölgað.