141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég skil mjög vel að það verði að vera niðurstaða Seðlabankans að við höfum tvo kosti. Við búum við krónu og hinn kosturinn, sem er evra, er háður þeim skilyrðum að þjóðin samþykki aðild að Evrópusambandinu.

Stærstu tíðindin finnast mér í raun vera þau að það er bara einn annar kostur til viðbótar við núverandi ástand. Það er sem sagt einn annar valkostur og það er evran. Það er mikið talað um kjark og dug í þessari umræðu, að við eigum að hafa hann, og núna finnst mér að við þurfum kjark og dug til að vega og meta einfaldlega hvor kosturinn er betri. Þó að við höfum tvo kosti þurfum við að lesa skýrsluna og dæma um það hvor er betri.

Þegar ég renni yfir skýrsluna finnst mér alveg augljóst að hún er eiginlega einn samfelldur áfellisdómur yfir krónunni. Vissulega getur verið að við þurfum að búa við hana en erfiðleikarnir sem eru taldir upp samfara því að hafa krónu eru svo miklu meiri í skýrslunni en þeir sem eru tengdir því að taka upp evru, og vissulega taldir upp í skýrslunni.

Það er farið ágætlega yfir þetta. Þeir sem hafa haldið því hvað mest fram að krónan feli í sér einhvers konar aðlögunarhæfni fyrir íslenskt efnahagslíf hafa ýmislegt að hugsa um þegar þeir lesa skýrsluna. Það er ítrekað sagt þarna að krónan valdi sveiflum og að lækningin sem krónan gefur okkur sé í raun og veru verri en sjúkdómurinn.

Svo dæmi sé tekið er ítrekað farið yfir kostnaðinn sem fylgir krónunni, bæði fyrir heimilin, ríkiskassann og atvinnulífið, tilfærsluna á fjármagni sem hún leiðir til. Evran er ekki þrautalaus og það er ítrekað sagt að hún komi ekki fyrr en eftir hálfan eða heilan áratug en þá finnst mér menn skauta dálítið létt yfir það að mjög fljótlega eftir að aðild yrði hugsanlega samþykkt (Forseti hringir.) mundum við ganga inn í ERM II og það er líka kafli í aðildarviðræðunum sem fjallar um þessi mál. Það skiptir mjög miklu máli hvernig þeim viðræðum lyktar og hvernig við færum (Forseti hringir.) inn í ERM II sem mundi gerast fljótt eftir að við samþykktum aðild.