141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið ánægð með það hvað þessar umræður hafa verið tiltölulega siðaðar og málefnalegar. Ég get tekið undir með mörgum sem hafa talað og tek heils hugar undir það sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kom hér á framfæri. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að við horfumst í augu við það að afsökunin fyrir því að losa okkur ekki undan viðjum verðtryggingar er að við þurfum að fá annan gjaldmiðil, en ef við getum ekki fengið annan gjaldmiðil fyrr en eftir tíu ár þá er það náttúrlega hjóm og nánast lygi að halda því fram að það verði eitthvert kosningamál að ætla að afnema verðtryggingu. Mér finnst mikilvægt að við horfumst í augu við veruleikann því að það er mjög ljótt að lofa einhverju sem er ekki hægt að standa við.

Það er annað sem ég hef miklar áhyggjur af sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom inn á. Það er þessi svokallaða gjaldeyrissnjóhengja. Ég er ekki alveg sannfærð um að við ráðum við að finna út úr þessu sjálf og hef um langa hríð, alveg frá því að bráðabirgðastjórnin var hér í febrúar 2009, reynt að fá það í gegn að einhverjir sérfræðingar verði kallaðir til. Á þeim tíma hafði Joseph Stiglitz heitið því að hann vildi aðstoða okkur við að finna lausnir á vandamálum okkar. Ég held að það væri mjög skynsamlegt að setja á fót sérfræðingateymi sem skoðaði málið með okkur. Þá yrði væntanlega byggt á þessari skýrslu Seðlabankans. Jafnframt þyrfti að taka með í reikninginn allt hitt sem mér finnst við skauta pínulítið fram hjá. Ég hef miklar áhyggjur af því að ekki eru skoðaðar fleiri leiðir. Ég held að maður sé kominn í öngstræti ef maður er ekki tilbúinn að skoða fleiri en eina eða tvær leiðir.