141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Frá fyrstu gengisfellingunni 1922 hefur verðgildi íslensku krónunnar lækkað um 99,95%. Í þau 90 ár hafa íslenskir stjórnmálamenn gengið í þennan ræðustól aftur og aftur og sagt: Við gerum bara betur næst. Þessi saga verður að kenna okkur eitthvað. Það er rétt og fagnaðarefni að hér hefur umræðan snúist um það að við eigum tvo valkosti, það eru sömu tveir valkostirnir og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi árið 2006, en annar valkosturinn leiddi til gjaldþrots. Ætla menn að halda áfram með hann? Það sem verra er er að sá valkostur færði með sér þó nokkurt viðskiptafrelsi fyrir hrun.

Ef menn ætla að halda sig við íslensku krónuna verður það óhjákvæmilega með höftum. Hvað er mikilvægast fyrir íslenska þjóð, smáríki sem berst fyrir sjálfstæði? Það er viðskiptafrelsi. Það er að aflétta viðskiptahindrunum og hömlum og íslenska krónan er ein slík. Við verðum að horfast heiðarlega í augu við það að það að nefna sjálfstæðan gjaldmiðil í þessari umræðu er beinlínis barnalegt. Það er ekki sjálfstæður gjaldmiðill þegar við á Alþingi höfum neyðst til að kyrrsetja eignir erlendra manna svo hundruð þúsunda milljóna skiptir með löggjöf og banna þeim að fara með fé úr landi eða Íslendingum að versla frjálst með gjaldmiðla. Það er ósjálfstæð þjóð sem það verður að gera. Við verðum hratt og örugglega að vinda ofan af þeirri sjálfheldu sem þessi leiðangur síðustu 90 ára hefur skapað okkur og eiga samstarf við aðrar (Forseti hringir.) fullvalda þjóðir um mynt.