141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni þá þarf ekkert að efast um að mögulegt er að lifa áfram með íslensku krónunni. Sú umgjörð sem krónan krefst er hins vegar umgjörð stífra reglna í stað samkeppni, minni kaupmáttar í stað meiri og áframhaldandi sveiflna í efnahagslífinu. Krónan hefur hamlandi áhrif á aðgengi innlendra aðila að erlendri fjármögnun og byggja þarf upp stóran og kostnaðarsaman gjaldeyrisforða.

Fram kemur í skýrslu Seðlabankans að ávinningur aðildar að evrusvæðinu sé aukin milliríkjaviðskipti og af þeim leiði hærri þjóðartekjur á mann, aðgangur að stórum fjármagnsmarkaði án gengisáhættu og þar af leiðandi lægri vextir og hærri þjóðartekjur á mann. Stærðarhagkvæmni peningakerfis leiðir af sér meiri samkeppni og ákveðinn rammi er um hagstjórn með lausafjárfyrirgreiðslu Evrópska seðlabankans.

Þó að hægt sé að lifa með krónuna, virðulegi forseti, má spyrja hvort hún sé í raun álitlegur valkostur. Það er því fagnaðarefni að Íslendingum bjóðist að kjósa hvort við viljum fara leið krónu eða evru þegar aðildarsamningur að Evrópusambandinu liggur fyrir.