141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

145. mál
[12:03]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er spurt hvað hefur komið í ljós við innleiðinguna sem hefur tafið hana. Ég kom að því í ræðu minni, það er í rauninni innleiðing á öllu þessu kerfi í heild. Ég tilgreindi að það eru svo margir aðilar sem þurfa að koma að þessu, það þarf að breyta tölvukerfum o.fl. Ástæðan fyrir því að það var ekki búið var einfaldlega sú að menn vildu ekki fara í gang með viðamiklar breytingar fyrr en búið væri að samþykkja frumvarpið. Það tafðist þannig að menn gáfu sér að minnsta kosti sex mánaða innleiðingartíma. Það má kannski segja að það hafi verið mistök á sínum tíma að ákveða 1. október.

Varðandi það hvort kerfið náist örugglega fram fyrir 1. janúar nk., það er stefnt að því en það verður að skoðast í samráði við nefndina. Markmiðið er að standa við það.

Varðandi greiðslur í upphafi sem hv. þingmaður bendir réttilega á að sé meðal vandkvæða við að innleiða kerfið, þ.e. að fólk greiði upp í ákveðið mark, er það hluti af þeim lausnum sem verður að leita í samstarfi við apótek og aðra aðila með hvaða hætti hægt er að koma til móts við þessa einstaklinga þannig að þetta skelli ekki á með fullum þunga allt í einu. Þetta mun auðvitað hafa áhrif á útgjöld hjá ríkinu fyrsta kastið, það er augljóst.

Varðandi fjórða atriðið sem var annar heilbrigðiskostnaður deilum við þeirri skoðun að það er mikið hagsmunamál að ná utan um þann kostnað líka með svipuðum hætti og gert er í lyfjafrumvarpinu. Það er eitt af þeim verkefnum sem þarf að vinna að í beinu framhaldi.