141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[13:31]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem borin er fram af öllum þingflokki framsóknarmanna og fjallar um frádrátt á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga. Ég ætla að byrja á því, með leyfi virðulegs forseta, að lesa upp tillöguna sjálfa:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að láta undirbúa lagasetningu með það að markmiði að beita skattkerfinu til að létta á húsnæðisskuldum almennings á þann hátt að afborganir af fasteignalánum einstaklinga verði frádráttarbærar frá tekjuskatti upp að ákveðnu marki. Andvirði skattafsláttarins verði nýtt beint til niðurgreiðslu höfuðstóls viðkomandi fasteignaláns. Lögin gildi tímabundið í þrjú ár. Miðað yrði við breytingu á höfuðstól skulda samkvæmt skattframtali.“

Það er ákveðin ástæða fyrir því að þetta er lagt fram í þessu formi, sem þingsályktunartillaga þar sem við hvetjum ráðherra fjármála og efnahagsmála til að leggja fram útfært frumvarp. Hún er sú að reynsla okkar sýnir að þegar við í stjórnarandstöðu höfum lagt fram útfærða tillögu að lausn í skuldamálum og raunar á það sama við um önnur mál líka hefur umræðan öll oft farið að snúast um einhverja meinta galla á útfærslunni og raunar hefur það oft verið þannig að tillögum sem koma frá stjórnarandstöðu hefur verið hafnað vegna þess hvaðan þær koma. Þess vegna ákváðum við að fara nýja leið núna og leggja þessa tillögu inn til umræðu en jafnframt treysta ráðherrunum fyrir því að útfæra tillöguna og vonandi gera þeir það í samráði við þingmenn Framsóknarflokks en einnig þingmenn annarra flokka. Við skýrum reyndar í greinargerð með tillögunni hvernig við teljum að hægt sé að framkvæma þetta og hverjir kostirnir við að ráðast í þessa aðgerð eru að okkar mati, en við erum að sjálfsögðu tilbúin að hlýða á ábendingar um það hvernig megi gera þetta enn betur. Þetta er sem sagt liður í þeim tilraunum til að skapa sátt og samstöðu um að þingmenn ólíkra flokka vinni saman að því að ráða bót á þessum mikla vanda sem enn er mjög stór, þ.e. skuldavandi heimilanna.

Ég ætla ekki að verja löngum tíma í að rifja upp fyrri tillögur okkar í þessum efnum. Þær hafa verið allmargar og sú þekktasta kannski tillagan sem við lögðum fram strax í byrjun árs 2009, um almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna á fasteignalánum. Sú tillaga held ég að mér sé óhætt að fullyrða hefur sannað gildi sitt á þeim tíma sem síðan er liðinn en því miður hafa verið gerðar þær breytingar, m.a. með stofnun nýju bankanna og yfirfærslu lána yfir í Íbúðalánasjóð, að orðið er mun erfiðara, a.m.k. mun dýrara, að framkvæma aðgerðina eins og við lögðum til á sínum tíma. Með tillögunni sem ég kynni hér í dag erum við ekki að falla frá hugmyndafræðinni um almenna leiðréttingu, við erum svo sannarlega ekki að falla frá þeirri skoðun okkar að það hafi verið hin rétta, hin sanngjarna og raunar líka hin hagkvæma leið og verðum áfram tilbúin að skoða allar lausnir sem miða að því að leiðrétta vegna þess forsendubrests sem varð hér á lánamálum heimilanna við efnahagshrunið. Tilgangurinn með tillögunni er að leggja inn í púkkið, þ.e. umræðuna um þessi mál, tillögu sem tekur á vandamálinu eins og það er núna, tillögu sem hægt er að hrinda í framkvæmd strax og er tiltölulega einföld í framkvæmd og, að því er við teljum, mjög skilvirk.

Með tillögunni er ekki hvað síst komið til móts við hóp sem hefur algjörlega orðið út undan í þeim aðgerðum sem þó hefur verið ráðist í í skuldamálunum af hálfu bankanna og kannski ekki hvað síst af hálfu dómstóla sem hafa dæmt ákveðin lánaform ólögmæt og með því í rauninni haft miklu meiri áhrif á skuldastöðu heimilanna en stjórnvöld með aðgerðum sínum.

Sá hópur sem hér er verið að reyna að koma sérstaklega til móts við, þótt þetta muni gagnast fleirum, er fólk sem er tiltölulega nýbúið að koma sér upp húsnæði, er nýbúið að stofna fjölskyldu eða stækka fjölskyldu og hefur verið að vinna við það að reyna að borga af skuldum sínum, reyna að standa í skilum, vinnur jafnvel langan vinnudag, jafnvel tvöfalda vinnu við það að standa undir stökkbreyttum skuldum af húsnæði, en fyrir þann hóp hefur í raun ekkert verið gert. Það er alltaf verið að senda fólki þau skilaboð að það verði ekkert gert fyrir menn nema þeir séu komnir algjörlega í þrot. Það má því segja að stjórnvöld séu nær eingöngu að búa til öfuga hvata í stað þess að skapa jákvæða hvata, hvetja fólk til þess að halda áfram að borga af skuldum og reyna að ná þeim niður, gera fólki það aðeins léttara að takast á við afleiðingarnar af stökkbreytingu lánanna.

Með þessu er reynt að koma til móts við þann hóp, fólk sem átti kannski eitthvert eigið fé í fasteign sinni, sem hefur verið að reyna að endurheimta dálítið eigið fé með því að halda áfram að borga af lánum og standa í skilum.

Þetta leysir þar með ekki vanda allra, enda mun engin ein aðgerð í skuldamálum augljóslega leysa vanda alls fólks. Aðstæður eru mjög mismunandi en með þessu er verið að reyna að koma til móts við stóran hóp sem algjörlega hefur verið litið fram hjá, hóp sem varð fyrir þessum forsendubresti en hefur haldið áfram að reyna að standa í skilum.

Þetta gagnast hins vegar miklu fleirum en þeim sem munu nýta sér þessi úrræði, þetta hlýtur að gagnast samfélaginu öllu því að þetta er liður í því að koma samfélaginu af stað, að hagkerfið fari að virka aftur. Það versta sem gæti gerst í framhaldi af efnahagskrísunni efnahagslega er að hún leiði til algjörrar stöðnunar, jafnvel langvarandi samdráttar. Til að útskýra hvað átt er við með þessu, og þessi hætta er mjög raunveruleg, nefna menn oft Japan sem dæmi. Japan lenti í sinni fjármálakrísu 1990, þar hækkuðu lán til mikilla muna en í stað þess að taka á vandanum á sínum tíma, leiðrétta lánin eða færa þau niður á einhvern hátt, var lengt í lánunum. Nú eru í Japan til dæmis 100 ára lán þekkt fyrirbæri, lán sem ganga þá bara í erfðir milli kynslóða. Afleiðingin hefur verið sú að efnahagsleg stöðnun hefur ríkt í Japan í tvo áratugi, þar hefur varla orðið hagvöxtur í 20 ár og efnahagslegt tjón af því og tap fyrir samfélagið þar af leiðandi orðið miklum mun meira en ef menn hefðu tekið á vandanum á sínum tíma.

Það að beita skattkerfinu til að ná jákvæðum efnahagslegum áhrifum, skapa jákvæða hvata, er vel þekkt. Við höfum að undanförnu fylgst með ríkisstjórninni státa sig af árangri af verkefni sem kallað er Allir vinna og gekk út á að endurgreiða virðisaukaskatt vegna framkvæmda, viðhaldsverkefna o.s.frv. Niðurstaðan varð sú, að mati stjórnvalda sjálfra, að þetta hefði á endanum komið út í plús fyrir ríkið og samfélagið, þ.e. að það að veita skattafsláttinn, endurgreiða skattinn, hefði skapað svo aukin umsvif og þar með talið svo auknar tekjur að niðurstaðan hefði orðið jákvæð. Ég rengi þetta ekki, ég efast ekki um að þetta hafi verið tilfellið. Annað þekkt dæmi sem rætt hefur verið töluvert að undanförnu er endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Stjórnvöld hafa bent á að mikill árangur hafi einnig náðst þar, tekjurnar og umsvifin hafi orðið meiri en ef ekki giltu þessar reglur um endurgreiðslur.

Svo er ekki úr vegi að vísa í annað þekkt dæmi sem er skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa, þegar stjórnvöld sáu ástæðu til að hvetja fólk til að fjárfesta í fyrirtækjum og þar með atvinnusköpun og töldu þar af leiðandi hagkvæmt að veita þann hvata að lækka skattana ef menn fjárfestu í atvinnurekstri. Svo hefur þetta raunar gengið svo langt að hér var sérstakt skattlaust ár, 1987 minnir mig að það hafi verið, þar sem voru algjör skattfríðindi. Menn héldu auðvitað áfram að borga söluskatt en það var haft sérstakt skattlaust ár til þess að koma efnahagslífinu í gang og ná ýmsum fleiri hagstjórnarmarkmiðum. Ég held að það hafi bara reynst ljómandi vel á sínum tíma.

Spyrjum okkur nú: Hvar er alveg sérstök þörf fyrir jákvæða hvata? Hvar í efnahagslífinu er alveg sérstök þörf á að bæta úr? Jú, auðvitað þurfti að koma af stað atvinnu í byggingargeiranum, þar var knýjandi þörf, en á hverju hanga nánast öll önnur vandamál? Hvar er kjarni vandans? Hann er í skuldastöðu íslenskra heimila vegna þess að allt hitt, velta í samfélaginu og þar með atvinnustig o.s.frv., er háð því að heimilin nái endum saman, geti verið virkir þátttakendur í efnahagslífinu. Þess vegna segjum við: Ef einhvers staðar á að nýta skattkerfið til að skapa jákvæðan hvata til að vinna bug á vanda eða stöðnun er það í skuldamálunum. Þess vegna leggjum við til, eins og ég las í upphafi máls míns, að útfærð verði tillaga um að það fjármagn sem fólk notar til að greiða niður húsnæðisskuldir sínar dragist frá tekjuskattsstofni. Það myndar hvata til að borga lánin hraðar niður og hefur mjög jákvæð langtímaáhrif, ólíkt greiðslum sem fólk notar strax í neyslu og hefur hugsanlega jákvæð áhrif til skamms tíma þá hefur þetta jákvæð langtímaáhrif langt fram í tímann ef tekst að ná niður skuldastöðu heimilanna.

Þetta ætti líka að hafa jákvæð áhrif á stöðu Íbúðalánasjóðs vegna þess að það liggur alveg fyrir að Íbúðalánasjóður er lentur í vanda. Menn tala um að hugsanlega þurfi að leggja 17 milljarða inn í hann strax á þessu ári af hálfu ríkisins. Þá væri það lánsfé enda ríkið ekki aflögufært um eigið fé, það þyrfti því að taka þessa peninga að láni. Með því móti bærust greiðslur miklu hraðar inn í Íbúðalánasjóð en ráð var fyrir gert og það væri þá hagkvæm og skynsamleg leið til að fjármagna sjóðinn. Auðvitað er þetta lántaka líka en þetta er hins vegar miklu vænlegri leið en ef ríkið færi að slá lán núna og setja það allt inn í sjóðinn. Með þessu móti gæti, þegar fram líða stundir, ríkið verið betur í stakk búið til að fjármagna sjóðinn og við skulum vona það líka að sjóðurinn verði kominn í betri stöðu eftir nokkur ár.

Þetta ætti líka að hafa þau áhrif að þrýsta vöxtum niður vegna þess að endurgreiðslurnar af lánunum koma hraðar inn í bankana og það þýðir að þeir sitji uppi með meira fjármagn en þeir gerðu ráð fyrir og þurfa að koma því aftur út, lána það aftur út og geta betur leyft sér að lána það til fasteignakaupa á lægri vöxtum, enda er þá fasteignalánasafnið þeirra orðið betra, veðhlutfallið orðið betra. Þetta helst í hendur, þetta tvennt, bæði eru lánasöfnin betri og meira fjármagn er komið inn í fjármálastofnanirnar, fjármagn sem þær þurfa að lána út aftur, og ef einhverjar af grundvallarkenningum hagfræðinnar gilda á það að þrýsta niður vöxtum.

Þetta hefur ýmis jákvæð hliðaráhrif. Þetta hefur jákvæð áhrif fyrir samfélagið allt og þetta tekur á meginvandanum, undirliggjandi vanda íslensks efnahagslífs, vanda sem þarf að leysa til að hægt sé að leysa annan vanda. Það er sama hvert litið er, við komum alltaf aftur að þessu meginvandamáli sem er skuldastaða heimilanna. Sú tillaga sem hér er lögð fram til umræðu er vonandi gott innlegg í það að taka á þessum grundvallarvanda.